Á hátt í 1.000 flugmerki

Eiríkur Líndal sálfræðingur heldur nákvæma skrá um safnið. Öll flugmerkin …
Eiríkur Líndal sálfræðingur heldur nákvæma skrá um safnið. Öll flugmerkin eru aðgengileg og uppröðuð á púðum í skápum. mbl.is/Golli

Flugið heillar á ýmsan hátt og Eiríkur Jón Líndal, sálfræðingur og formaður Myntsafnarafélags Íslands, tengist því sérstaklega í gegnum söfnun á íslenskum og skandinavískum flugmerkjum. „Ég byrjaði á þessari söfnun 1999 og á orðið hátt í 1.000 merki frá íslenskum og öðrum norrænum flugfélögum,“ segir hann.

Flugfélög hafa komið og farið í gegnum tíðina, hvergi er til skrá yfir merki þeirra fyrir utan lítinn bækling um flugmerki í Skandinavíu og umfangið því ekki vitað. Eiríkur segist því einkum hafa leitað fanga hjá eldri flugmönnum, flugfreyjum og öðrum starfsmönnum flugfélaga um merki og að sér hafi verið mjög vel tekið í gegnum árin. Eftir árásina á Bandaríkin 2001 hafi hins vegar orðið ákveðin vatnaskil varðandi merki frá flugfélögum í Skandinavíu. „Þá urðu talsmenn flugfélaga mun varkárari í öllum samskiptum og tregari að láta hluti frá sér,“ segir hann. „Tortryggnin jókst og menn voru á varðbergi gagnvart því að þessir hlutir yrðu misnotaðir í höndum annarra.“ Hann segir samt að eftir því sem safnið hafi stækkað hafi verið auðveldara að fá hluti á ný. Hann kveðst vera í góðu sambandi við innlend flugfélög og eigi einnig í góðu samstarfi við mörg flugfélög á Norðurlöndunum og þá sérstaklega SAS.

Nær 20 ára áhugamál

Eiríkur segir að fyrir tæplega 20 árum hafi hann byrjað að velta fyrir sér flugsögunni. Hann hafi kynnst manni sem hafi átt í flugfélaginu Íscargo. Það hafi verið nokkuð umsvifamikið en síðan horfið af sjónarsviðinu. „Þá velti ég því fyrir mér hvort það væri hreinlega að gleymast og spurði hann hvort hann ætti eitthvað til minningar um félagið. Þá lét hann mig hafa bréfsefni félagsins og lítið starfsmannaspjald. Það var það eina sem hann átti frá félaginu.“ Í kjölfarið hafi hann leitt hugann að öðrum flugfélögum, sem hafi hætt starfsemi, og byrjað að safna merkjum þeirra sem og annarra sem voru í rekstri, í þeim tilgangi að þessir hlutir glötuðust ekki. „Fljótlega vatt þetta upp á sig og ég byrjaði líka að eignast aðra hluti sem voru merktir þessum félögum.“

Samfara söfnuninni hefur Eiríkur kynnt sér flugsöguna vel, safnað bókum um flugfélög og einstaklinga tengda þeim og orðið sér úti um annan fróðleik til þess að reyna að átta sig sem best á stöðunni. „Þannig hef ég fengið nánari upplýsingar en þær eru langt því frá tæmandi,“ segir hann.

Vantar elstu merkin

Sem fyrr er erfiðast að nálgast elstu taumerki Flugfélags Íslands, sem voru í ýmsum stærðum og útfærslum, og svo sérmerki Loftleiða sem voru á ermum búninga. Eiríkur segir að þau hafi oft verið tekin af búningunum, þegar þeir hafi verið settir í hreinsun, og gömlum merkjum hent þegar ný hafi verið tekin í notkun. „Mikill og ánægjulegur tími hefur farið í að eltast við merki og muni frá flugfélögum fyrri tíða og hef ég á þeirri leið kynnst mörgum mjög áhugaverðum einstaklingum sem hafa aðstoðað mig með einum eða öðrum hætti við söfnunina. Er ég þeim öllum afar þakklátur.“

Hann vonar að safnið muni með tímanum geta sýnt yfirlit yfir þau flugfélög sem hafa verið til á landinu í gegnum árin, í gegnum merkin sem þau notuðu, og það sama eigi við um félögin frá hinum Norðurlandaríkjunum.

Safnið er mjög vel skipulagt og skráð í Excel. Eiríkur segir hvert einstakt merki eiga sína sögu og skrásetur hann vandlega það sem hann veit um sögu þess og eiganda.

Öll merkin eru aðgengileg og uppröðuð á púðum í skápum en aðrir og stærri munir eru í möppum og kössum. „Áhugi minn á merkjunum leiddi mig í Myntsafnarafélag Íslands, þar sem mikill áhugi er á mynt-, seðla- og merkjasöfnun,“ segir hann.

Eiríkur hefur sýnt hluta safnsins á sérstökum sýningum en hefur ekki ákveðið hvað hann geri að lokum við það. „Ég er ekki enn kominn á þann aldur að ég sé farinn að hugsa um að láta þetta frá mér,“ segir hann.

Flugmerki Flugfélags Íslands.
Flugmerki Flugfélags Íslands. mbl.is/Golli
Úr flugmerkjasafni Eiríks Líndals.
Úr flugmerkjasafni Eiríks Líndals. mbl.is/Golli
Úr flugmerkjasafni Eiríks Líndals.
Úr flugmerkjasafni Eiríks Líndals. mbl.is/Golli
Öll flugmerkin í safni Eiríks Líndals eru aðgengileg og uppröðuð …
Öll flugmerkin í safni Eiríks Líndals eru aðgengileg og uppröðuð á púðum í skápum. mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert