Ógnaði manni með hnífi eftir orðaskipti

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Hæstiréttur hefur dæmt mann í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi og svipt hann ökurétti í fjóra mánuði vegna umferðarlagabrots og fyrir að hafa ógnað manni með hnífi. Með brotunum rauf maðurinn skilorð vegna eldri dóms, sem var tekinn upp og manninum gerð refsing í einu lagi fyrir öll brotin.

Refsing mannsins fellur niður að tveimur árum liðnum haldi hann skilorð en ákærða er gert að sæta umsjón á skilorðstímanum. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði dæmt manninn í 12 mánaða fangelsi, óskilorðsbundið.

Samkvæmt dómi héraðsdóms voru málsatvik þannig að ákærði tók upp hníf og lagði hann að hálsi nágranna síns í janúar 2016, eftir að sá hafði sagt við ákærða: „Þegiðu barnaperrinn þinn.“

Vitni var á vettvangi og sagðist hafa séð ákærða draga eitthvað upp sem honum sýndist vera hnífur og leggja að hálsi nágrannans.

Ákærði kvað atvik hafa verið með þeim hætti að hann hefði verið að ganga að heimili sínu þegar hann hefði séð nágrannann rispa bifreið sína með lykli. Komið hefði til orðaskipta og nágranninn kallað til hans: „Helvítis barnaníðings ógeðið þitt.“

Kvaðst hann hafa gengið að nágrannanum og borið hnefa hægri handar upp að hálsi hans en kannaðist ekki við að hafa tekið upp hníf sem hann bar í slíðri við beltisstað.

Ákærði sagði sig og nágrannann hafa átt í deilum um árabil. Nágranninn sagði sömu sögu, en að illdeildurnar tengdust m.a. fréttum af því að ákærði hefði hlotið refsidóm fyrir kynferðisbrot gegn barni.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að skýringar ákærða á atburðum hefðu verið misvísandi og ótrúverðugar og að þeim bæri að hafna.

Hæstiréttur komast að þeirri niðurstöðu að við ákvörðun refsingar bæri m.a. að horfa til langvarandi deila mannanna og að nágranninn hefði oftsinnis látið ögrandi ókvæðisorð falla um ákærða í hans áheyrn, sem tengdust þeirri háttsemi sem hann hefði áður verið dæmdur fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert