Mikilvægt á meðan ofbeldið þrífst

„Þangað til kynbundið ofbeldi þrífst ekki lengur er mikilvægt að koma saman, stuðla að vitundarvakningu, fá fólk með okkur til að berjast gegn kynbundnu ofbeldi og til þess að beita ekki ofbeldi,“ sagði Inga Dóra Pétursdóttir framkvæmdastýra UN Women í Hörpu í dag þar sem dansað var gegn kynbundnu ofbeldi.  

Viðburðurinn var meðal annars helgaður minningu Birnu Brjánsdóttur sem var ráðinn bani í síðasta mánuði eftir að hún hafði verið að skemmta sér í miðbænum. Inga Dóra segist ekki efast um að kynbundið ofbeldi sé ofarlega í huga margra vegna þeirra atburða. Hún segir að þetta hafi verið gert með góðfúslegu leyfi foreldra hennar. „Við vildum heiðra minningu hennar með þessum krafti, þessari gleði og þessari samstöðu.“

Þetta var í fimmta skipti sem viðburðurinn fór fram undir merkjunum Milljarður rís en dansað var um allan heim og víða um land. Það var DJ Margeir sem sá til þess að fólk hreyfði sig og þá kom Svala Björgvinsdóttir fram með Scope og flutti gamla næntís-smellinn Was that all it was.

mbl.is var í Hörpu í dag þar sem stemningin var frábær en um 2500 manns voru á staðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert