Brautskrá 450 frá Háskóla Íslands í dag

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. Sigurður Bogi Sævarsson

Rúmlega 450 kandídatar taka við brautskráningarskírteini sínu í grunn- eða framhaldsnámi frá Háskóla Íslands í dag, laugardaginn 18. febrúar, þegar febrúarbrautskráning skólans fer fram í Háskólabíói klukkan 13. 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, mun ávarpa hópinn í upphafi athafnar, en í framhaldinu verða nemendur úr 25 deildum af öllum fimm fræðasviðum skólans, félagsvísindasviði, heilbrigðisvísindasviði, hugvísindasviði, menntavísindasviði og verkfræði- og náttúruvísindasviði. Samanlagður fjöldi brautskráðra er 455, 329 konur og 126 karlar. 

179 kandídatar brautskrást frá félagsvísindasviði, 78 frá heilbrigðisvísindasviði, 77 frá hugvísindasviði, 51 frá menntavísindasviði og 70 frá verkfræði- og náttúruvísindasviði. Í hópi brautskráðra er fyrsti nemandinn sem útskrifast með MS-gráðu í lífupplýsingafræði á verkfæði- og náttúruvísindasviði.

Að lokinni brautskráningu kandídata mun Inga María Árnadóttir, varaformaður Stúdentaráðs, flytja ávarp og Háskólakórinn syngur nokkur lög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert