Sex kíló af kertavaxi á mann

mbl.is/Thinkstock-Getty Images

Danir kunna betur en flestir að hafa það huggulegt og eru jafnframt hamingjusamasta þjóð í heimi. Orðið hygge hefur breiðst út eins og eldur í sinu að undanförnu. Orðið hygge er hreinlega búið að fara sigurför um heiminn, rétt eins og danskir sjónvarpsþættir.

Hygge var tilnefnt sem orð ársins 2016 hjá Oxford-orðabókinni. Orðin sem komast þar á lista þurfa að hafa endurspeglað þá hugmyndafræði og stemningu sem ríkt hefur árið á undan. Skemmst er að segja frá því að orðið post-truth vann illu heilli þessa kosningu. Hygge var líka tilnefnt sem orð ársins hjá Collins-orðabókinni, þar sem það tapaði fyrir Brexit.

Óþýðanlegt á ensku

Merkilegt er að orðið hygge þykir vera óþýðanlegt á enska tungu og því hefur því verið bætt í málið. Collins segir hygge vera það að „skapa notalegt andrúmsloft sem stuðli að vellíðan“ og Oxford er að vonum með svipaða skilgreiningu og er áhersla jafnframt lögð á að þetta sé einkenni danskrar menningar. Oxford-orðabókin segir hygge vera velkomið svar við pólitískum deilum og dauða margra þekktra stjarna á árinu 2016.

En hvað tengist sérstaklega öllum þessum huggulegheitum? Visit Denmark hefur brugðist við þessum áhuga á hygge og skrifar á vef sínum um dönsku listina að hafa það huggulegt. „Hygge er eins danskt og svínasteik og kaldur bjór og fer langt með að lýsa upp danska þjóðarsál. Í reynd þýðir hygge að skapa þægilegt og notalegt andrúmsloft og að njóta góðu hlutanna í lífinu umkringdur góðu fólki. Þægileg birtan frá kertaljósi er hugguleg. Vinir og fjölskyldur líka,“ er skrifað þar. „Og ekki gleyma mat og drykk og helst að sitja í kringum borðið í marga klukkutíma að ræða bæði stór mál og smá,“ stendur þar og er því velt fyrir sér hvort þessi hugmynd um dönsk huggulegheit geri Dani að einhverri hamingjusömustu þjóð í heimi.

Í tölum

  • Danir brenna meira af kertavaxi en nokkur önnur Evrópuþjóð, eða um 6 kílóum á mann, sem er tvöfalt á við Austurríkismenn sem eru næstir í röðinni.
  • Orðið hygge er ekki upprunalega úr dönsku heldur norsku, þar sem það þýddi vellíðan. Fyrstu skriflegu heimildirnar um notkun orðsins í dönsku eru frá því í byrjun 19. aldar.
  • Á Instagram er hygge mikið notað og er búið að merkja um 1,7 milljónir mynda á þann hátt.
  • Á Pinterest fjölgaði pinnuðum myndum tengdum hygge um 285% á milli ára. Var það sérstaklega áberandi hjá breskum notendum frá og með september í fyrra.
  • Í Bretlandi var orðið hygge notað í 40 greinum í blöðum sem þar eru gefin út á landsvísu árið 2015 en í yfir 200 greinum árið 2016.
  • 71% Dana upplifir huggulegustu stemninguna heima hjá sér en 29% utan heimilis.
  • 30% heimila í Danmörku eru með arin eða kamínu en 3,5% í Bretlandi.

Þetta er stytt útgáfa af grein sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

mbl.is/Thinkstock-Getty Images
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert