Nota nafn Björgólfs við netsvindl

Rétt er að vara lesendur við allskonar gylliboðum á netinu …
Rétt er að vara lesendur við allskonar gylliboðum á netinu þar sem látið er líta út fyrir að þekktir Íslendingar ætli að aðstoða fólk við að efnast mikið. Mynd/Facebook

Um helgina birtist keypt auglýsing á Facebook þar sem boðað var að fjárfestirinn Björgólfur Thor Björgólfsson væri að upplýsa um „töfraformúluna“ sína við að efnast. Var fólki vísað á vefsíðu þar sem nánari upplýsingar um meinta „töfraformúlu“ áttu að liggja fyrir, en nokkuð ljóst mátti vera að um einhverskonar svindl var að ræða.

Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Novator, segir í svari til mbl.is að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem hún sjái dæmi um svindlstarfsemi sem þessa. Segist hún hafa séð svona „fréttir“ með nafni Björgólfs og fleiri fjárfesta, en greinilegt sé að svindlararnir vandi ekkert of mikið til verks. Bendir hún á að í einni umsögn „vinar“ Björgólfs á síðunni sé Björgólfur kallaður Patrick.

Meðal þess sem reynt er að gera til að skapa meiri trúverðugleika í kringum síðuna er að merkja hana sem „Facebook news.“ Þá eru sýnd ummæli frá notendum Facebook neðst á síðunni sem lofa þessa nýju „töfraformúlu“ en greinilegt er þó að ekkert er á bak við þau ummæli og þau ekki raunverulega tengd samfélagsmiðlinum.

Ragnhildur segir verst ef einhverjir falli fyrir svona svindli og vonar að flestir sjái í gegnum það. „Þetta er hins vegar lífseigur fjári eins og allt illgresi og skýtur ítrekað upp kollinum,” segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert