Hannar skart með hringabrynjumynstri

Skartgripagerðin með hringabrynjumynstri krefst nákvæmni.
Skartgripagerðin með hringabrynjumynstri krefst nákvæmni. Ljósmynd/Svanhildur Eiríksdóttir

Í Geðræktarmiðstöð Suðurnesja, Björginni, er boðið upp á endurhæfingarúrræði fyrir fólk með geðheilsuvanda. Eitt af því sem stendur notendum til boða er Athvarf, sem m.a. hefur það að markmiði að rjúfa félagslega einangrun. Þangað finnst Ólafi Inga Brandssyni gott að koma og vinna að list sinni.

Ólafur Ingi hefur nýtt sér aðstöðu Bjargarinnar frá árinu 2008 og segir úrræðið hafa skipt sköpum fyrir sig. Hann hafði verið til sjós um árabil og setið á skólabekk í Kanada þar sem hann stundaði grunnnám í listum, þrívíddargrafík og tæknibrellum þegar hann fann að heilsan var búin. Heilabúið og skrokkurinn gaf sig eins og hann kemst sjálfur að orði.

„Ég hafði átt við þunglyndi að stríða alveg frá því að ég man eftir mér en varð fyrst áþreifanlega var við það þegar ég var í tækniskólanum og lá í bælinu í hálfan mánuð,“ segir Ólafur. Það er létt yfir honum þó dagarnir séu misjafnir. Hann segist reyna að koma í Björgina á hverjum degi ef heilabúið leyfi.

„Ég sæki mest í vinnuaðstöðuna hér og þó ég hafi alveg aðstöðu heima, þá hef ég ekki fólkið sem hér er og það er svo mikilvægt, annars myndi ég einangrast,“ segir Ólafur sem líður þó best með heyrnartól á eyrum að hlusta á sögu á meðan hann er að einbeita sér við handverkið.

Ólafur hafði prófað ýmsa afþreyingu í Björginni þegar hann varð gagntekinn af gerð víkingaskartgripa með hringabrynjumynstri. Fyrst notaði hann hringi úr ryðfríu stáli en færði sig svo yfir í álhringi, sem hann hefur notað allar götur síðan. Hann segir eitt það lærdómsríkasta við námið í Kanada hafa verið það að uppgötva að hann yrði að gera eitthvað í höndunum til að halda sönsum, skilja eftir sig eitthvað áþreifanlegt frekar en starfa í sýndarheimum í tölvum.

Allt upp í 500 hringir í einum skartgrip

„Ég byrjaði á því að gera víkingaskart úr leðri, armbönd, hálsmen og eyrnalokka sem ég sá tækifæri til að selja ferðamönnum en rak svo augun í keðju á Víkingahátíðinni í Hafnarfirði árið 2015 sem mér þótti rosalega flott, keypti mér eina og fór svo og náði mér í hringi og tangir og bjó til alveg eins keðju, sem fyrsta verkefni,“ segir Ólafur um upphafið. Síðan hlóðst utan á þetta, úrvalið jókst, litir og mynstur urðu fleiri, sem Ólafur segir áskorun og lærdómsríkt að takast á við.

Hann segist gjarnan nota samfélagsmiðilinn YouTube og vefsíður annarra sem gera skart með hringabrynjumynstri til að skerpa á kunnáttunni. Ólafur segir um 700 mismunandi mynstur vera til, sem síðan sé hægt að gera í óteljandi útfærslum eftir stærð hringa. Þeir sem Ólafur er að handfjatla eru agnarsmáir og krefjast tanga í báðum höndum, enda þarf yfirleitt að byrja á því að opna hringana meira og loka svo aftur. Í grunninn eru hringarnir gormar sem skornir eru eftir endilöngu og hann festi nýverið kaup á sög til þess að útbúa sjálfur sína hringi.

„Þá þarf ég bara vír og teina eða hólka í mismunandi sverleika. Eftir að hafa vafið vír utan um tein er kominn gormur sem sögin sker niður. Framvegis mun ég því ekki sitja uppi með lager af hringum heldur get ég gert hringi fyrir einn skartgrip í einu.“

Ólafur segir allt upp í 500 hringi fara í hvern grip.

Leðurskartið er til sölu í Gullfosskaffi og hafa umsjónarmenn staðarins einnig óskað eftir skarti Ólafs með hringabrynjumynstri, svo það er einnig væntanlegt í sölu þar. Að auki hefur Ólafur sett á fót síðu á Facebook og er að undirbúa vefsölusíðu.

Tenglar: Facebook: Knotty Viking of Iceland www.knottyviking.com

Félagsleg samvera mikilvægust

Markmið Bjargarinnar eru m.a. að rjúfa félagslega einangrun, efla sjálfstæði einstaklinga og þjálfa í atvinnutengdri hegðun, auka samfélagsþátttöku einstaklinga, draga úr stofnanainnlögnum og auka þekkingu almennings á geðheilbrigðismálum.

Félagsleg samvera er mikilvægasti þáttur Athvarfsins og í raun grunnur að frekari endurhæfingu. Samveran á sér bæði stað innan Bjargarinnar og annars staðar úti í samfélaginu.

Endurhæfing miðar að því að gefa einstaklingnum tækifæri til að efla færni sína á ýmsum sviðum. Meðal annars er boðið upp á námskeið, hópastarf, fræðslu og eflingu sem stuðlar að bata.

Boðið er upp á markvissa eftirfylgd sem tekur mið af þörfum hvers og eins. Sérstök áhersla er lögð á eftirfylgd við þá einstaklinga sem komnir eru á vinnumarkað eða í nám og hafa þörf fyrir áframhaldandi stuðning.

Víkingaskart Ólafs Inga úr leðri er selt í Gullfosskaffi.
Víkingaskart Ólafs Inga úr leðri er selt í Gullfosskaffi.
Þeir eru ófáir hringarnir sem fara í skartgripagerðina.
Þeir eru ófáir hringarnir sem fara í skartgripagerðina. Lósmynd/Ólafur Ingi Brandsson
Ólafi Inga finnst gott að nýta sér vinnuaðstöðu Bjargarinnar og …
Ólafi Inga finnst gott að nýta sér vinnuaðstöðu Bjargarinnar og komast þannig frá eingangrun. mbl.is/Svanhildur Eiríksdóttir
Ólafur Ingi notar álhringi til að búa til víkingaskartgripina.
Ólafur Ingi notar álhringi til að búa til víkingaskartgripina. Ljósmynd/Ólafur Ingi Brandsson
Armbönd úr álhringjum í öllum regnbogans litum.
Armbönd úr álhringjum í öllum regnbogans litum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert