Hildur biðst lausnar úr borgarstjórn

Hild­ur Sverr­is­dótt­ir tók sæti sem aðalþingmaður við and­lát Ólaf­ar Nor­dal.
Hild­ur Sverr­is­dótt­ir tók sæti sem aðalþingmaður við and­lát Ólaf­ar Nor­dal.

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að biðjast lausnar sem borgarfulltrúi í borgarstjórn Reykjavíkur. Hildur tók sæti sem aðalþingmaður við fráfall Ólafar Nordal fyrr í mánuðinum. 

Í tilkynningu frá Hildi segir að lausnarbeiðnin verði tekin fyrir á borgarstjórnarfundi 7. mars næstkomandi en fram að því muni hún vinna að því að koma útistandandi málum í góðan farveg.

Hildur þakkar gott samstarf við borgarfulltrúa og embættismenn og segist munu halda áfram að vinna fyrir Reykvíkinga í störfum sínum á Alþingi en hún er þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður.

Tilkynning Hildar í heild sinni:

Við óumræðilega sorglegt og ótímabært fráfall Ólafar Nordal varð ég þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður. Í kjölfarið hef ég ákveðið að biðjast lausnar sem borgarfulltrúi í borgarstjórn Reykjavíkur.

Lausnarbeiðnin verður formlega tekin fyrir á borgarstjórnarfundi þann 7. mars næstkomandi þar sem ég mun óska eftir því við borgarstjórn, með vísan til 2. mgr. 30. gr. sveitarstjórnarlaga, að mér verði veitt lausn frá öllum störfum mínum fyrir borgarstjórn. Þangað til mun ég eftir fremsta megni koma útistandandi málum í góðan farveg.

Ég hef haft mikla ánægju af starfi mínu sem borgarfulltrúi en tel betra að öll mikilvægu verkefnin sem bíða beggja megin Vonarstrætis fái óskipta athygli. Ég mun halda áfram að vinna fyrir Reykvíkinga í störfum mínum á Alþingi eins og við á. Ég þakka gott samstarf við borgarfulltrúa og embættismenn borgarinnar undanfarin ár.

Virðingarfyllst,

Hildur Sverrisdóttir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert