„Þörfin sjaldan eða aldrei verið meiri“

Guðlaugur Þór og Sveinn undirrituðu samstarfsyfirlýsinguna í húsnæði Rauða krossins …
Guðlaugur Þór og Sveinn undirrituðu samstarfsyfirlýsinguna í húsnæði Rauða krossins í dag. Mynd/Rauði krossinn

„Utanríkisráðuneytið og Rauði krossinn á Íslandi hafa endurnýjað samstarfsyfirlýsinu um reglubundið framlag utanríkisráðuneytisins til starfa alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) og gagnkvæma upplýsingagjöf og samstarf um mannúðarmál.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rauða krossinum en Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Sveinn Kristinsson, formaður Rauða krossins á Íslandi, undirrituðu yfirlýsinguna í dag.

Yfirlýsingin gildir út árið 2019 en þar er framlag stjórnvalda til alþjóðaráðs Rauða krossins tvöfaldað. Í tilkynningunni er haft eftir Sveini að hann sé „sérstaklega ánægður“ með tvöföldun á framlagi til alþjóðaráðs Rauða krossins enda muni þeir fjármunir renna beint til aðgerða.

„Eins og við vitum hefur þörfin sjaldan eða aldrei verið meiri en núna og þetta viðbótarframlag utanríkisráðuneytisins er því afar mikilvægt, auk þess að vera viðurkenning á því góða starfi sem Rauði krossinn vinnur.“

Þá er haft eftir Guðlaugi Þór að samstarf stjórnvalda við Rauða krossinn á Íslandi hafi reynst afar vel.

„Þessi yfirlýsing rammar ekki aðeins inn hefðbundin framlög okkar til alþjóðaráðs Rauða krossins, heldur kveður einnig á um ákveðið faglegt samtal okkar á milli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert