Dagskrártillaga Pírata felld

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmenn Pírata óskuðu eftir því við upphaf þingfundar á Alþingi í dag að dagskrá fundarins yrði breytt þannig að frunvarp þeirra um að kjararáð taki launahækkanir til þeirra sem undir það heyra til endurskoðunar yrði tekin á dagskrá.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sagði nauðsynlegt að taka frumvarpið á dagskrá þar sem kjarasamningar um 70% launþega gætu að öðrum kosti verið í uppnámi í næstu viku. Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, lýsti því yfir að þingmenn flokksins styddu dagskrártillöguna og Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, lýsti því yfir að þingflokkur hans styddi breytta dagskrá.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, lýsti því hins vegar yfir að þingmenn framsóknarmanna styddu ekki að tillagan yrði tekin á dagskrá í dag enda hefði Alþingi þegar tekið á málinu fyrir jól með aðkomu allra flokka á þingi. Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, sagði sinn flokk að sama skapi ekki styðja málið.

Dagskrártillögunni var hafnað með 37 atkvæðum gegn 18. Jón Þór steig í pontu og sagði þegar úrslitin lágu fyrir að forseti Alþingis gæti enn sett málið á dagskrá einhvern næstu daga. Hvatti hann ennfremur fólk til þess að senda inn umsagnir um frumvarpið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert