Búið að loka Kjalarnesinu

Leiðin um Hellisheiði er enn opin en þar verður veginum …
Leiðin um Hellisheiði er enn opin en þar verður veginum lokað á eftir vegna veðurs. mbl.is/Rax

Búið er að loka leiðinni um Kjalarnes vegna þess hversu blint er þar. Hellisheiðinni hefur ekki enn verið lokað en búast má við að það verði fljótlega. Til stóð að loka leiðinni um Kjalarnes klukkan 12 en lokuninni var flýtt. 

Í dag má búast við að færð spillist mjög víða og ekkert ferðaveður verði á landinu, því má búast við eftirfarandi lokunum á vegum.

09:00 – 18.00 Eyjaföll og Hellisheiði.

11:00 – 18:00 Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði.

12:00 – 17:00 Reykjanesbraut.

12:00 – 18:00 Hafnarfjall.

15:00 – 21:00 Holtavörðuheiði og Brattabrekka.

16:00 og fram á kvöld Mývatns- og Möðrudalsöræfi, Fjarðarheiði, Fagridalur og Oddsskarð.

 Ábendingar frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar:

„Óveðrið er heldur fyrr á ferðinni. Það hefur í för með sér að veður er þegar mjög versnandi á Hellisheiði og Mosfellsheiði. Blint þar og vaxandi vindur.

Á Kjalarnesi skefur og þar verða hviður 35-40 m/s frá hádegi. Hvessir fljótlega austur undir Eyjafjöllum og í Mýrdal og fljótlega hviður þar allt að 40-50 m/s í A-áttinni. Útlit er fyrir að versni á Reykjanesbraut upp úr kl. 12 og vindur um 25 m/s þvert á, með hviðum allt að 35-40 m/s samfara krapa og vatnsaga.

Á Holtavöruheiði og Bröttubrekku gerir síðan hríðarveður um miðjan dag. Á Austfjörðum mun smám saman gera stórhríðarveður og hvessir með skafrenningi austan- og norðaustanlands einnig. Hríðarveður eins á fjallvegum Vestfjarða þegar kemur fram á daginn. SV-lands má reikna með að lægi í kjölfar skilanna á milli kl. 16 og 17,“ segir á vef Vegagerðarinnar.

Snjór er á Reykjanesbraut og hálkublettir á höfuðborgarsvæðinu. Snjóþekja og skafrenningur er á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka, hálkublettir og snjóþekja er á flestum leiðum á Suðurlandi. Hálka eða snjóþekja er á Vesturlandi en snjóþekja er á Bröttubrekku.

Á Vestfjörðum er hálka og hálkublettir á flestum leiðum og sums staðar snjóþekja. Snjóþekja, hálka og éljagangur er á fjallvegum á sunnanverðum Vestfjörðum. Ófært er úr Bjarnarfirði á Ströndum norður í Árneshrepp.

Hálka, hálkublettir, snjóþekja og éljagangur er á Norðurlandi og sums staðar snjókoma og jafnvel skafrenningur. Ófært er á Hólasandi en hálka og skafrenningur er á Dettifossvegi.

Á Austurlandi er hálka, snjóþekja og éljagangur á flestum leiðum og víða skafrenningur. Þungfært er um Fjarðarheiði, Fagradal og Oddsskarð. Ófært er á Breiðdalsheiði og Öxi. Hálka eða snjóþekja er með suðausturströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert