Tæp tvö ár fyrir ítrekuð umferðarlagabrot

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt konu á fimmtugsaldri í tæplega tveggja ára fangelsi fyrir ítrekuð umferðarlagabrot, þar sem hún keyrði endurtekið undir áhrifum amfetamíns og metýlfenídats frá mars og fram í september á síðasta ári.

Í öllum tilvikunum keyrði hún án þess að vera með ökuréttindi, en þeim hafði hún áður verið svipt.

Konan hefur ellefu sinnum áður sætt refsingu, þar á meðal fyrir skjalafals, fjársvik, umboðssvik, líkamsárás, barnaverndarlagabrot, ölvunarakstur, hylmingu og þjófnað.

Að öllu ofangreindu virtu þótti dómaranum ekki efni til að skilorðsbinda refsingu hennar, sem nemur 22 mánuðum.

Þá var hún dæmd til að greiða allan sakarkostnað, 1.601.924 krónur, svipt ökurétti ævilangt og bifreið hennar gerð upptæk til ríkissjóðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert