Funda með ráðherra um Grindavíkurveg

Umferð um Grindavíkurveg hefur aukist um 53% frá árinu 2012.
Umferð um Grindavíkurveg hefur aukist um 53% frá árinu 2012. Kort/map.is

„Það er eiginlega bara tvennt sem er hægt að gera. Það er að aðskilja akstursstefnur og laga umhverfi vegarins,“ segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Vilhjálmur tilheyrir hópi sem berst fyrir umbótum á Grindavíkurvegi en tvö banaslys hafa orðið á veginum á innan við tveimur mánuðum. „Öðruvísi er ekki hægt að tryggja öryggi á þessum vegi.“

Auk Vilhjálms samanstendur hópurinn af bæjarstjóra Grindavíkur, fulltrúum bæjarstjórnar og fulltrúum stærstu fyrirtækjanna á svæðinu. Að sögn Vilhjálms var hópurinn settur á laggirnar um miðjan janúar, stuttu eftir að 18 ára stúlka lést í slysi á Grindavíkurvegi, norðan við afleggjarann að Bláa lóninu. Annað banaslys varð þar í morgun þegar bíll valt út af veginum en ökumaður hafði misst stjórn á bifreiðinni.

„Þetta er alltaf jafnsorglegt,“ segir Vilhjálmur um slysið í morgun en hann segir bæjaryfirvöld í Grindavík undanfarna mánuði hafa lagt mikla áherslu á að bæta þyrfti úr umferðaröryggi á Grindavíkurvegi.

Grindavíkurbær hafi til að mynda tekið málið sérstaklega fyrir í kjördæmavikunni í febrúar, þegar allir bæjarfulltrúar sveitarfélaganna og þingmenn kjördæmisins komu saman. Þá sé þegar búið að bóka fund með vegamálastjóra á fimmtudag og með Jóni Gunnarssyni samgönguráðherra 15. mars.

Flóknari umferð

Hópurinn hefur undanfarnar vikur unnið að því að safna upplýsingum um Grindavíkurveginn og segir Vilhjálmur að eitt af því fyrsta sem komið hafi ljós sé að umferðin um veginn sé á einhvern hátt flóknari en á öðrum vegum landsins.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tilheyrir hópi fólks sem berst fyrir …
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tilheyrir hópi fólks sem berst fyrir umbótum á Grindavíkurvegi.

 „Hér ertu með 3.200 manna bæjarfélag sem er ört vaxandi og svo er þetta orðið stórt atvinnusvæði þannig að margt fólk kemur hingað til að vinna í Bláa lóninu og á fleiri stöðum og margir fara héðan til Reykjavíkur eða út á Keflavíkurflugvöll til að vinna. Þetta er þessi venjulegi íbúi sem er vanur veginum, þekkir hann og keyrir samkvæmt því. Svo ertu með unga fólkið sem þarf að keyra í skóla dags daglega, því hér er hvorki framhaldsskóli né háskóli. Svo ertu með rúmlega 90% af öllum ferðamönnum sem koma til landsins sem koma gangandi, hjólandi eða keyrandi um veginn og það er allt óvant fólk á veginum. Loks koma 50 rútur í Bláa lónið á hverjum degi og svo ertu með gríðarlega þungaflutninga út af fiskinum.“

Umferðin er því fjölbreytt og að sögn Vilhjálms er vegurinn einnig erfiður veðurfarslega.

„Hann er lagður svona eftir hólum og hæðum og svo er þarna orkuver sem spúir raka allan daginn. Það kemur þessi óvænta hálka og ísing á hann sem er svo misjöfn eftir því hvar þú ert á honum.“

Hópurinn hefur sem fyrr segir unnið hörðum höndum að því að safna upplýsingum um veginn sem og tillögum að úrbótum en að sögn Vilhjálms hefur Grindavíkurbær verið í samskiptum við sérfræðinga um mögulegar úrbætur í nokkur ár.

„Þegar Jón [Gunnarsson] tók við [sem samgönguráðherra] kallaði hann eftir tillögum um úrbætur frá Vegagerðinni og Vegagerðin er að vinna í því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert