Öll prófin jafnþung

Samræmdu könnunarprófin sem nemendur taka eru ekki öll eins.
Samræmdu könnunarprófin sem nemendur taka eru ekki öll eins. mbl.is/Eggert

„Þessi staða sem við erum í núna er einstök. Þess vegna þurfum við að dreifa prófunum því sumir skólarnir hafa ekki tækin til að leggja þau fyrir öll í einu. Við bregðumst við því með því að hafa spurningarnar ekki allar eins,“ segir Valgerður Rún Benediktsdóttir, staðgengill forstjóra Menntamálastofnunar.

Mismunandi útgáfur af samræmda könnunarprófinu eru lagðar fyrir nemendur í 9. og 10. bekk og er ástæðan sú að ekki geta allir tekið prófið á sama tíma. Tilgangurinn er einnig að tryggja próföryggi.

Valgerður segir að nemendur fái sama prófið en ekki endilega sömu spurningar. Báðar útgáfurnar eru gerðar eftir sömu skilgreiningu á innihaldi prófsins, spurningarnar meta sömu kunnáttu eða færni og hafa sömu eða svipaða þyngd.

Markmið prófsins er að nemendum gefst tími til að bregðast við og móta áherslur í námi í 10. bekk. Er þá tækt að veita framhaldsskólum þessar upplýsingar til að ákvarða um inntöku í skólann?

„Skólunum er það í sjálfsvald sett hvort þeir ætli að skoða ársgamlar einkunnir til að meta nemendur inn í skólana. Fyrst og fremst munu þeir líta til lokamats í skólum en þeim hefur hingað til verið heimilt að líta til annarra þátta, t.d. tómstundaiðkunar og nú samræmds könnunarprófs. Skólarnir sjálfir verða að svara því að hversu miklu leyti þeir líta á prófið,“ segir Valgerður.

Hún bendir á að það eigi ekki að gera of mikið úr mikilvægi þessara könnunarprófa þegar litið er til inntökuþátta í framhaldsskóla því þetta sé einn af mörgum þáttum. Þá sé það alveg skýrt að Menntamálastofnun sendir þessar einkunnir ekki til framhaldsskólanna. Það sé á valdi nemenda að gera það þegar þeir sækja um í framhaldsskóla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert