„Mun gera mitt allra, allra besta“

Svala og teymið svöruðu spurningum blaðamanna eftir að úrslitin voru …
Svala og teymið svöruðu spurningum blaðamanna eftir að úrslitin voru tilkynnt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ég trúði svo mikið á lagið og ég vissi að ég gæti staðið á bak við það hvernig sem þetta myndi fara,“ sagði Svala Björgvinsdóttir á blaðamannafundi eftir úrslit Söngvakeppninnar í gær. Lagið hennar Paper verður framlag Íslands til Eurovision sem fer fram í Kænugarði í Úkraínu í maí. 

Ætlarðu að fylgja í fótspor Jóhönnu og Selmu og jafnvel taka eitt skref lengra?

„Það væri heiður að enda á sama stað og þær, í öðru sæti. En maður veit aldrei hvernig fólkið í Evrópu tekur laginu, hvort það taki því eins og við á Íslandi. Ég mun gera mitt besta til að fara eins langt og ég get.“

Hefurðu fengið að kynnast þessu brjálæði sem er í kringum Eurovision?

„Um leið og lagið kemur fram þá byrjaði þetta. Þá byrjuðu aðdáendur að sýna mér stuðning og ég veit að fólk hefur mikla ástríðu fyrir þessu sem mér finnst frábært og ég hlakka til að kynnast því enn betur.“

Finnurðu fyrir mikilli pressu?

„Ég set pressuna mikið á sjálfa mig, þannig vinn ég. En ég tek þessu sem ótrúlega flottu verkefni sem ég ætla að klára og gera vel. Allt svona finnst mér spennandi, ég elska að vera á sviði og syngja fyrir fólk þannig að ég mun gera mitt allra, allra, allra besta.“

Þurfti að vera frumlegt og töff

Eru einhverjar hugmyndir með að taka sýninguna í kringum atriðið á næsta stig fyrir keppnina í Kænugarði

„Við erum að vinna í því að koma þessu á næsta stig. Það eru margar pælingar í gangi. Við erum með gott teymi og geggjaðar bakraddir,“ sagði Einar Egilsson, eiginmaður Svölu og þá tók Svala við hljóðnemanum. 

„Okkur langaði að gera eitthvað sem væri frumlegt, ekki týpískt. Mér finnst lagið mitt og ég dálítið öðruvísi en þeir sem hafa verið að keppa í Eurovision. Það finnst mér spennandi. koma með smá frumleika og hafa þetta töff. Það eru nokkrar hugmyndir í gangi sem við þurfum að undirbúa fyrir keppnina,“ sagði Svala. 

Á blaðamannafundinum sátu innlendir sem erlendir blaðamenn og Eurovision-aðdáendur.
Á blaðamannafundinum sátu innlendir sem erlendir blaðamenn og Eurovision-aðdáendur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvernig verður kynningarstarfi fyrir lagið háttað?

„Ég held að það fari af stað á næstu dögum. Ég var alls ekki sigurviss þannig að ég er ekki búin að plana neitt en nú förum við að plana prómó og allt sem því fylgir, við erum með gott teymi í þessu.“

Þú samdir lagið Wiggle wiggle song árið 2009 fyrir Söngvakeppnina, hvað fékk þig til að taka aftur þátt?

„Við sömdum lagið fyrir ári síðan. Það var upprunalega ekki samið fyrir Söngvakeppnina heldur bara fyrir hljómsveitina okkar. Nokkrum vikum eftir að við höfðum samið lagið fórum við að tala um að þetta væri flott fyrir Söngvakeppnina. Þetta er stórt lag og alþjóðlegt, það gæti gert flotta hluti. Þá fór ég á netið til að skoða hvernig keppnina hefði verið undanfarið og hugsaði að þetta gæti verið skemmtileg lífsreynsla. Ég trúði svo mikið á lagið, ég vissi að ég gæti staðið á bak við mitt lag hvernig sem það myndi fara.“

Svíþjóð og Danmörk sterk

Hefurðu heyrt önnur lög sem taka þátt í Eurovision sem þú telur vera sterk?

„Ég sá nokkur lög í Svíþjóð og mér líkar við lagið sem vann. Það er sterkt lag og líka lagið frá Danmörku. Þau tvö skara fram úr að mínu mati.“

Er þetta lag þinn stíll?

„Já, ég og maðurinn minn sömdum það og hann pródúseraði það með öðrum. Ég hef verið þekkt fyrir að gera rafræna danstónlist. Þetta er dálítið meginstraums en tónninn og stíllinn er í ætt við það sem ég hef verið að gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert