Efla fjarskiptasamband á hálendinu

Að sögn Sigurbjörns hefur verið sæmilegt samband í Landmannalaugum en …
Að sögn Sigurbjörns hefur verið sæmilegt samband í Landmannalaugum en það mun bætast til muna með komu nýs sendis. mbl.is/Árni Sæberg

„Það mun verða mun öflugra og hraðvirkara farsímasamband [á hálendinu],“ segir Sigurbjörn Eiríksson, forstöðumaður netkerfa hjá Vodafone, en fyrirtækið hyggst í vor setja upp nýja senda á nokkrum stöðum á hálendinu til að bæta gagnasambandið á þeim slóðum.

Í samtali við mbl.is segir Sigurbjörn að setja eigi upp langdræga háhraðanetsenda á Skrokköldu, Fjórðungsöldu, Hörðubreiðarhálsi og í Landmannalaugum en slíkur sendir er þegar á Snjóöldu.

„Inni í Landmannalaugum hefur verið sæmilegt samband en til að fá háhraðasamband hefur fólk þurft að fara svona 500 metra frá skálanum, þannig að við ætlum að bæta það á svæðinu.“

Ábendingar frá Landsbjörg

Vodafone er einn helsti styrktaraðili Landsbjargar og segir Sigurbjörn að fyrirtækinu hafi borist ábendingar frá björgunarsveitunum um hvar mætti bæta fjarskiptasamband á hálendinu.

„Við erum í ákveðnu samstarfi með Landsbjörg og þeir hafa verið að ýta aðeins að okkur stöðum sem mættu vera í betra sambandi. Það er gríðarlegur ferðamannastraumur þarna og til að verða við öllum þeim sem þarna eru á ferð þá förum við í háhraðanetið.“

Sigurbjörn segir að sendarnir verði settir upp í byrjun maí en ætlunin er að þeir verði tilbúnir til notkunar áður en mesti ferðamannastraumurinn byrjar.

„Viljum verja viðskiptavinina“

Auk þessa ætlar Vodafone að bæta stofnnetið með nýjum ljósleiðaralegg sem mun tengjast frá Vatnsfelli yfir á Kirkjubæjarklaustur. Stefnt er að því að tengileiðin verði tilbúin í lok apríl en hún er liður í að tryggja fjarskiptasamband ef náttúruhamfarir ganga yfir Suðurlandsundirlendið.

„Við erum að horfa til öryggisins og erum raunverulega að fyrirbyggja að við eða viðskiptavinir okkar verði fyrir truflunum ef til einhverra hamfara kemur. Þannig viljum við verja viðskiptavinina með sem allra bestum hætti.“

Stefnt er að því að tengileiðin verði tilbúin í lok apríl en í sömu framkvæmd ætlar Vodafone að efla farsímasenda sína og færa sig yfir í 3G, ásamt því að taka niður örbylgjusambönd sem hafa verið erfið og dýr í rekstri yfir vetrartímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert