„Erum svolítið í lausu lofti“

Boðaþing 22.
Boðaþing 22. Ljósmynd/Ja.is

„Þeir sendu okkur bréf sem er dagsett 14. mars og dreift degi síðar. Þar eru fólki gefnir tveir kostir,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson, íbúi í Boðaþingi 22 sem situr í stjórn íbúðafélagsins, í samtali við mbl.is.

Eins og kom fram í fréttum RÚV í hádeginu standa íbúar í þjónustuíbúðum við Boðaþing í Kópavogi í deilum við húseigandann, Naustavör, dótturfélag Sjómannadagsráðs. Um miðjan síðasta mánuð unnu íbúar dómsmál vegna ofgreiðslu hússjóðs í fjögur ár. 

Rekstrarfélagið Naustavör á og rekur 95 öryggis- og þjónustuíbúðir í Boðaþingi og búa þar um 140 eldri borgarar. Fimm þeirra höfðuðu mál gegn Naustavör og töldu sig hafa greitt of mikið í hússjóð. Héraðsdómur dæmdi leigjendum í vil.

Naustavör hefur veitt íbúum frest fram á þriðjudag til að falla frá kröfum um endurgreiðslu hússjóðs, að öðrum kosti falli leigusamningurinn úr gildi. „Fólki eru gefnir tveir kostir en það fylgir viðauki gildandi leigusamningi þar sem fallið er frá innheimtu húsgjalds en sama krónuupphæð lögð á húsaleiguna. Þá fá menn sem skrifa undir tryggingu fyrir að vera hér áfram, upp á sömu kjör og áður en um leið fylgir yfirlýsing í viðaukanum um að menn falli frá öllum sínum kröfum sem byggjast á dómnum,“ segir Þorsteinn.

Hann bendir á að hver íbúi eigi líklega inni um hálfa milljóna króna með vöxtum, eða samtals 40 milljónir fyrir allar íbúðirnar. „Fólki er sagt að falla frá kröfum, annars er leigusamningi sagt upp og þeim verður boðinn nýr leigusamningur á einhverjum óskilgreindum kjörum,“ segir Þorsteinn.

Hann segir góða samstöðu ríkja meðal íbúa en þeir funduðu um málið í gær. Spurður um næstu skref telur Þorsteinn líklegt að menn frá Naustavör komi á mánudag og gefi fólki kost á að skrifa undir viðauka við leigusamninginn.

Meðan við vitum ekki hvort þeir áfrýi dómnum þá erum við svolítið í lausu lofti. Ef þeir áfrýja þá virka niðurstöður dómsins ekki fyrr en meðferð lýkur. Ef þeir áfrýja ekki þá liggur beint við að þeir íbúar sem voru ekki í þessu dómsmáli krefjist þá að njóta sömu kjara og þeir sem höfðuðu málið eða þeir verði að fara í mál sjálfir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert