Framlög á nemanda lægri en fyrir áratug

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stúdentaráð Háskóla Íslands leggst alfarið gegn þeirri aðhaldsstefnu stjórnvalda sem hefur verið ríkjandi í málefnum háskólans undanfarin ár, að því er fram kemur í ályktun SHÍ um málið.

Þar segir að stefna stjórnvalda hafi leitt til verulegrar undirfjármögnunar háskólans.

„Það hefur alvarleg áhrif á gæði náms sem sést meðal annars á niðurfellingu um 50 námskeiða við skólann á þessu ári vegna kröfu stjórnvalda um aðhald. Benda má á að fleiri námskeið hafa verið felld niður undanfarin ár og því er ekki um að ræða fyrsta skiptið sem gripið hefur verið til slíkra aðhaldsaðgerða. Þær aðhaldsaðgerðir geta leitt til þess að einstaklingar þurfi að fresta útskrift auk þess sem þær minnka val innan námsgreina, draga úr möguleika námsmanna á sérhæfingu í námi og skerða jafnrétti til náms. Þær brjóta gegn stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar þar sem kveðið er á um að „háskólar á Íslandi verði studdir í að halda uppi gæðum og standast alþjóðlega samkeppni.“ Það skýtur skökku við að mæla fyrir auknum stuðningi við háskólana, en um leið boða aðhaldsaðgerðir í málefnum þeirra.

Á undanförnum misserum hefur ítrekað komið fram að íslenskir háskólar standast ekki alþjóðlegan samanburð þegar kemur að fjármögnun þeirra. Íslenskir háskólar fá um helmingi lægri framlög á hvern háskólanema en háskólar annars staðar á Norðurlöndum. Enn eru framlög á hvern nemanda í íslensku háskólakerfi lægri en þau voru fyrir áratug - og það þrátt fyrir að háskólakerfið hafi samkvæmt erlendum úttektum verið undirfjármagnað á þeim tíma. Stúdentaráð krefst þess að sú staða verði leiðrétt.

Öflugt menntakerfi er grunnstoð framsækinna og samkeppnishæfra nútímasamfélaga. Stúdentaráð Háskóla Íslands trúir því að stjórnvöld hafi áhuga á að byggja upp slíkt samfélag á Íslandi og krefst þess að þau sýni það í verki,“ segir í ályktun SHÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert