Má ekki hygla ákveðnum flugfélögum

Alþjóðlegar samþykktir sem Ísland er aðili að kveða á um …
Alþjóðlegar samþykktir sem Ísland er aðili að kveða á um að flugfélög hafi heimild til að fljúga til alþjóðaflugvallanna á Íslandi, hvort sem er Keflavík, Akureyri, Egilsstaðir eða Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/ÞÖK

Miklir annmarkar eru á því að neita flugfélögum um afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli, að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Isavia. Félaginu beri að fylgja eftir jafnræðisreglu og loftferðarsamningum, auk þess sem  úthlutun á afgreiðslutímum sé í mjög föstum skorðum og þurfi að fylgja EES reglum.

Grímur Sæ­mundsen, for­maður  Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar (SAF), kom með þá tillögu á fundi SAF á föstudag að lággjalda­flug­fé­lög­um sem aðeins fljúga til Íslands yfir sum­ar­tím­ann verði beint til Ak­ur­eyr­ar og Eg­ilsstaða gegn lægri lend­ing­ar­gjöld­um. Arn­heiður Jó­hanns­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri markaðsstofu Norður­lands, tók vel í tillöguna og sagði ekki standa á Norðanmönnum að taka á móti gestunum.

„Það er rétt að það er mikið að gera Keflavíkurflugvelli á þremur álagstímum sólahringsins, en þess á milli er nóg af lausum afgreiðslutímum,“ segir Guðni og vísar þar í  orð Frank Holtons, framkvæmdastjóra Airport Coordination fyrirtækisins sem sér meðal annars um úthlutun lendingarleyfa á Keflavíkurflugvelli. „Það er ekki hægt að neita flugfélögum um þessa lausu tíma, en ef farið er í aðgerðir þá verða þær að vera almennar og og það má ekki hygla ákveðnum flugfélögum framyfir önnur.“

Ekki sjálfgefið að annar völlur í sama landi verði fyrir valinu

Guðni bendir á að nú þegar sé ákveðið hvatakerfi í gangi sem feli í sér að ódýrara sé að lenda á Akureyri og Egilstöðum og eins séu veittir afslættir þegar flugfélög eru að koma á fót nýrri flugleið. „Þannig að það eru ýmsir hvatapunktar, en síðan þarf að markaðssetja svæðið og áfangastaðina, því það er ekki ekki sjálfgefið að flugfélag velji annan flugvöll í sama landi, ef því er synjað um flugvöllinn sem það sótti um.“

Gott er hins vegar að fá umræðu um þessi mál að mati Guðna, sem telur æskilegt að Ísland myndi sér framtíðarstefnu í flugmálum, líkt og gert hefur verið í löndum víða í kringum okkur. Flugsamgöngur séu líka mikilvægar fyrir eyþjóð eins og Ísland. „Viljum við t.d. einblína á tengiflug eða að fá fleiri farþega inn í landið,“ segir hann og bendir á möguleikanum á Íslandi sem tengipunkt milli heimsálfa út frá landfræðilegri legu sinni.

Allt þurfi þetta þó að samræmast þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Ísland er aðili að. „Þær reglur kveða á um að evrópsk flugfélög hafi heimild til að fljúga til alþjóðaflugvallanna á Íslandi, hvort sem er Keflavík, Akureyri, Egilsstaðir eða Reykjavíkurflugvöllur og að sama skapi þá hafa íslensku flugfélögin leyfi til að fljúga til flugvallanna í Evrópu á meðan að afkastageta leyfir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert