Einkavæðing leiði til aukinnar kostnaðarþátttöku og lakari þjónustu

Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut.
Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut. mbl.is/Ómar Óskarsson

Aðalfundur SFR- stéttarfélags í almannaþjónustu sem haldinn var í gær tók afdráttarlausa afstöðu gegn allri einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og konstaðarhlutdeild sjúklinga. Fundurinn taldi einhliða ákvarðanir stjórnmálamanna hafa komið í bak landsmanna án umræðu um stefnubreytingu í málaflokknum.

Ályktun fundarins um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu:

„Á undanförnum misserum hefur kostnaðarþátttaka sjúklinga og einkavæðing í heilbrigðiskerfinu aukist stórlega. Einhliða ákvarðanir sjórnvalda hafa komið í bak landsmanna án umræðu um stefnubreytingu í málaflokknum. Mikill meirihluti almennings hefur lýst því yfir að heilbrigðisþjónusta skuli vera í höndum stjórnvalda enda sé einungis þannig hægt að tryggja jöfnuð. 

Reynsla annarra landa þar sem heilbrigðisþjónusta hefur verið einkavædd að hluta eða í heild, sýnir að hún leiðir af sér aukna kostnaðarþátttöku sjúklinga og lakari þjónustu.

Aukin kostnaðarþátttaka verður að teljast liður í einkavæðingarferlinu. Með því móti eru sjúklingar vandir við að greiða eigi fyrir þjónustu af þessu tagi og því ólíklegra að til baka yrði aftur snúið.

Aðalfundur SFR telur fullljóst að aðeins með opinberum rekstri heilbrigðiskerfisins sé hægt að tryggja jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag. Einkavæðing heilbrigðiskerfisins veikir stoðir grunnþjónustunnar og tekur aðalfundur SFR því afdráttarlausa afstöðu gegn öllum aðgerðum í þá veru. 

Frekar ætti að færa rekstur heilbrigðiskerfisins í félaglegra horf enda skilar það betri og réttlátari þjónustu og minni kostnaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert