Óðamála kona með óteljandi dúkkur

Chrystle Collis var glöð að hitta aftur íslenska gestinn Bjarneyju.
Chrystle Collis var glöð að hitta aftur íslenska gestinn Bjarneyju.

Með nokkurra ára millibili datt Bjarney Margrét Jónsdóttir óvænt inn í Dúkkuland á Nýja-Sjálandi, hjá sömu skrýtnu konunni, en ekki á sama stað. Bjarney segir Nýsjálendinga líka Íslendingum, dugnaðarfólk sem kann að bjarga sér.

„Þessi kona var alveg frábær, ótrúlega fyndin og skemmtileg. Það var virkilega gaman að ganga inn í þessa undraveröld heima hjá henni. Hún talaði rosalega hratt með miklum hreim, svo ég átti afar erfitt með að skilja hana, en ég skildi þó að hún væri með húsið sitt opið fyrir gesti af því að henni þætti gaman að kynnast fólki. Og henni þætti líka gaman hversu góðar minningar margar brúður vektu hjá gestum hennar.“

Fundu dúkkuland. Saman í stelpuferð, Bjarney, Þórhildur og Helga María.
Fundu dúkkuland. Saman í stelpuferð, Bjarney, Þórhildur og Helga María.


Þetta segir Bjarney Margrét Jónsdóttir sem í tvígang rakst óvænt á allsérstæða konu, Chrystle Collis, hinum megin á hnettinum, á Nýja-Sjálandi. Kona þessi hefur safnað gríðarlegum fjölda af hverslags brúðum, böngsum og leikföngum. „Þessu safni hefur hún raðað samviskusamlega upp um alla veggi heima hjá sér og kallar „Dollyworld“, þangað sem öllum er velkomið að líta inn.“

Tekatlalandið vakti sérstaka athygli þeirra

Bjarney hefur komið nokkrum sinnum til Nýja-Sjálands því dóttir hennar, tengdasonur og tveir ömmudrengir búa þar, í Dunedin.

Þær eru um 800 hundruð barbídúkkurnar en stefnan er að …
Þær eru um 800 hundruð barbídúkkurnar en stefnan er að þær verði 1.000.


„Ég hitti þennan brúðusafnara í fyrsta sinn árið 2012, en þá bauð Mary, nýsjálensk tengdamóðir dóttur minnar, bauð mér í bíltúr til að skoða syðsta odda suðureyjunnar á Nýja-Sjálandi. Þar eru bernskuslóðir hennar og hún sýndi mér meðal annars Kaka Point, stað þar sem hún hafði leikið sér sem barn. Þar í flæðarmálinu eru ávalir klettar sem kallast „Nuggets“ og þarna trónir viti hátt uppi á tanga við opið haf, líkt og í ævintýri. Þegar við keyrðum svo í gegnum Owaka, sem er lítið þorp, þá rákum við augun í „Tepot-Land“, eða tekatlaland, sem var ekki safn heldur afar óvenjuleg garðskreyting við einbýlishús, með tepottum í öllum stærðum og gerðum sem og ýmsum kynjaverum. Við stoppuðum auðvitað til að skoða undrið og sáum þá að húsið við hliðina var merkt: „Dolly World“, eða Dúkkuheimur. Þangað var fólki velkomið að fara inn og skoða sem við og gerðum, og fundum fyrir magnaða dúkkusafnið og hittum þessa sérstöku konu, hana Chrystle Collis.“

Úti í garði var lagt á borð fyrir bangsa sem …
Úti í garði var lagt á borð fyrir bangsa sem lásu um bangsa. Brúður í glugga.


Hún hafði aldrei áður hitt fyrir Íslending

„Hún var alsæl að fá okkur í heimsókn og hafði aldrei heyrt minnst á Ísland á ævinni og hafði ekki hugmynd um hvar það var á jarðarkringlunni. Þetta var því mikil upplifun fyrir hana, ekki síður en okkur. Hún bað mig um að skrifa eitthvað á íslensku á miða og setja á korktöflu hjá henni, sem ég gerði með glöðu geði,“ segir Bjarney sem skrifaði: „Velkomin í dúkkuland, hér var gaman að koma, bestu kveðjur frá Íslandi.“

Hún segir að allt húsið hafi verið stútfullt af brúðum, flestar voru barbíbrúðurnar, um átta hundruð, en einnig ótal bangsar, lukkutröll og brúður úr sögum og teiknimyndum, Bangsímonar, Mikki Mús, Bósi ljósár og fleiri.

Elvis stendur stoltur hjá brúðum.
Elvis stendur stoltur hjá brúðum.


„Hún byrjaði að safna brúðum fyrir meira en tuttugu árum þegar hún og maðurinn hennar fóru að gera við dúkkur fyrir fólk. Hún saumaði líka klæði á brúðurnar og seldi þær á markaði. Upp úr þessu hófst söfnunin og með tímanum fór fólk að gefa henni brúður í safnið. Hún hefur í seinni tíð líka pantað brúður á netinu, til dæmis Elvis, en hann sómdi sér vel innan um kvenkynsbrúðurnar sem eru í miklum meirihluta. Ég sá ekki nema einn og einn Ken þarna.“


Gjammandi slefandi hundar

Fjórum árum seinna var Bjarney enn og aftur stödd á Nýja-Sjálandi, og rakst þá óvænt aftur á Dúkkulandið, á nýjum slóðum þó. „Þá skruppum við í dagsferð til þorps sem heitir Milton, ég, Helga dóttir mín og Þórhildur vinkona okkar sem einnig býr í Dunedin. Í Milton eru margar skemmtilegar skranbúðir með notaðar vörur sem okkur langaði að kíkja á. Úr þessu varð mjög skemmtileg stelpuferð okkar þriggja og við skelltum okkur líka til Balclutha, en þar sá ég fyrir algera tilviljun að vinkona mín var komin með dúkkulandið sitt. Hún var búin að fylla nýtt hús á nýjum stað með dúkkunum sínum óteljandi í Dollyworld.

Dúkkuland á Nýja-Sjálandi
Dúkkuland á Nýja-Sjálandi


Það urðu miklir fagnaðarfundir og gaman að rekast aftur á þessa furðukonu í öllu sínu veldi. Hjá henni voru tveir risastórir hundar sem geltu stöðugt og úr hvofti þeirra lak mikið slef,“ segir Bjarney og bætir við að allt hafi verið miklu betur uppsett en á gamla staðnum, aðgengilegra og huggulegra. „Hún er á meiri ferðamannaslóðum og miklu fleiri koma fyrir vikið að heimsækja dúkkulandið hennar. Þetta er greinilega mikil ástríða hjá henni og skemmtileg leið til að eiga í samskiptum við fólk. Það er enginn aðgangseyrir en fólk má láta aur í bauk ef það vill.“

Þetta eru gúmmístígvélatípur rétt eins og við Íslendingar

Bjarney segir að einum skransalanum í Milton hafi þótt merkilegt hversu íslenskan hljómaði líkt og tungumál frumbyggjanna. „Mér finnst reyndar margt líkt með Nýsjálendingum og Íslendingum, þetta eru eyjaþjóðir og gúmmístígvélatípur. Þetta er dásamlegt fólk og við erum á einhvern hátt eins gerð, dugnaðarfólk sem kann að bjarga sér,“ segir Bjarney sem er heilluð af náttúrufegurðinni á Nýja-Sjálandi. „Þetta er dásamlegt land að ferðast um. Þarna eru miklir skógar og himinhá fjöll, jöklar og strendur, eins og fólk hefur til dæmis kynnst í kvikmyndunum um Hringadróttinssögu. Þetta er að mörgu leyti líkt því sem við þekkjum á Íslandi, en þó er allt einhvern veginn stærra. Þarna eru risavaxnir Suðuralpar með háu tindunum sínum, jöklum og skriðjöklum. En það sem er ólíkt Íslandi eru þessir miklu regnskógar, og mjúkar hæðir heiðanna.“

Á meðfylgjandi myndskeiðum tveimur má sjá viðtöl við dúkkufrúna og mann hennar:

Tepottaland var skemmtilegt
Tepottaland var skemmtilegt
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert