Logi bjargaði lífi á Tenerife

Logi Geirsson.
Logi Geirsson. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Logi Geirsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta, segir frá því á Facebook þegar hann bjargaði lífi manns með hjartahnoði er hann var í fríi með fjölskyldu sinni á Tenerife fyrr í mánuðinum.

Þegar hann var á gangi fyrir utan hótelið sitt heyrir hann hvell og kom þá í ljós að bíll hafði keyrt á ljósastaur. Eldri kona steig út úr bílnum og sagði að ökumaðurinn hefði fengið hjartaáfall. Hrópaði hún á hjálp.

Logi náði manninum út úr bílnum og hóf björgunaraðgerðir.  

„Ég hnoðaði hann 30 sinnum og ekkert virtist gerast nema að nokkur rifbein brotnuðu með látum. En eftir ca. 20 kröftug þríhöfðahnoð í viðbót tekur maðurinn þessi svakalegu andköf sem mun aldrei renna mér úr minnum og hjartað fer að slá í honum! Mér tókst að endurlífga mann,“ skrifar Logi.

Hann segist oft hafa velt fyrir sér hvað hann myndi gera ef hann kæmi að manneskju sem þyrfti að hnoða, sérstaklega eftir að hann varð faðir sjálfur.

„En þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst þetta um boðskapinn. Verið búin að ákveða að hjálpa til þegar þið komið að svona aðstæðum, hvort sem það sé slys, hjartaáfall eða einhver í neyð. Við getum alltaf hjálpað,“ skrifar hann.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert