Tekur upp hanskann fyrir Mosty

Eliza Reid forsetafrú.
Eliza Reid forsetafrú. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eliza Reid, eiginkona Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands, hvetur fólk til að vera umburðarlynt og sýna skilning þeim útlendingum sem flytja til Íslands og læra tungumálið seinna en þeir sem eru fæddir og uppaldir hér.

„Ræðum það sem þingmenn segja frekar en með hvaða hreim þeir gera það,“ skrifar Reid á Facebook-síðu sinni og á við umræðu á netinu um að Nichole Leigh Mosty, þingmaður Bjartrar framtíðar, eigi ekki að sitja á Alþingi vegna þess að hún talar ekki lýtalausa íslensku.

Nichole Leigh Mosty.
Nichole Leigh Mosty. mbl.is/Ómar

Reid segir í færslu sinni að hún viti af eigin reynslu hversu erfitt það getur verið að læra nýtt tungumál á fullorðinsárum.

„Ég tala með hreim, beygi orð rangt, segi stundum tóma vitleysu sem fær fólk til að hlæja eða það skilur ekki neitt fyrr en ég er búin að útskýra hlutina aftur (búningur, búðingur, hver er eiginlega munurinn á því ;) ),“ skrifar hún.

„Þótt ég þurfi ekki að flytja langar eða stuttar ræður á Alþingi kem ég reglulega fram og tala þá oftast íslensku. Ég geri mitt besta og sem betur fer er mér alltaf vel tekið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert