Algengt að starfsmenn fái ekki sína hvíld

Álagið á Landspítalanum er oft mikið.
Álagið á Landspítalanum er oft mikið. mbl.is/Golli

Mjög algengt er að ákvæði um hvíldartíma vaktavinnufólks sem finna má í mörgum kjarasamningum séu brotin á vinnustöðum, sagði Bára Hildur Jóhannsdóttir, verkefnisstjóri mannauðsmála hjá Landspítalanum í erindi sem hún hélt á vinnufundi réttindanefndar BSRB á föstudag.

Fjallað er um erindi hennar á vef BSRB.

Þar kemur fram að almennt eiga starfsmenn sem vinna vaktavinnu rétt á 11 klukkustunda hvíld á milli vakta að lágmarki, þó á því séu ákveðnar undantekningar. Þá er skýrt kveðið skýrt á um rétt á lengra hléi, sambærilegu helgarhléi þeirra sem ekki vinna vaktavinnu.

Bára sagði það allt of algengt að bæði stjórnendur og starfsmennirnir sjálfir virtu ekki ákvæði um hvíldartíma starfsmanna. Ástæðurnar fyrir því geta verið ýmsar. Bára nefndi til dæmis menninguna á hverjum vinnustað, eða jafnvel smærri einingum. Þá sagði hún einnig algengt að brotið sé gegn ákvæðum um hvíldartíma þegar starfsmenn ákveði sjálfir sín á milli að skiptast á vöktum.

Óskavaktir draga úr brotum

Bára sagði ýmsar leiðir mögulegar til að vinna gegn þessu. Fyrir það fyrsta verði þeir sem útbúi skipulag fyrir vaktir að gæta vel að því að engar undantekningar séu gerðar á ákvæðum um hvíld starfsmanna í vaktakerfinu. Hún sagði skýrt að það sé stjórnandinn sem beri ábyrgð á því að setja fram rétt útfærða áætlun sem standist öll ákvæði kjarasamninga.

Þá sagði hún margt benda til þess að með því að bjóða starfsmönnum að óska sjálfum eftir vöktum eftir svokallaðri óskavaktaleið megi draga úr skiptum á vöktum þar sem starfsmenn fái svigrúm til að skipuleggja vaktirnar eftir því sem hentar þeim. Þegar skiptum á vöktum fækki dragi samhliða úr því að starfsmenn fái ekki næga hvíld á milli vakta. 

Bára benti á að á þegar yfirmaður á vinnustað hafi lagt fram vaktaskipulag séu það starfsmennirnir sjálfir sem verði að bera ábyrgð á eigin hvíldartíma að einhverju leyti, til dæmis með því að skipta ekki á vöktum ef það mun hafa í för með sér að þeir fái ekki þá hvíld sem kveðið er á um í kjarasamningum. Þá eigi þeir ekki að samþykkja vaktaskipulag sem feli í sér brot gegn hvíldartíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert