Saknaði skyrsins að heiman

Smári fær sér skyr á hverjum degi enda mikill Íslendingur …
Smári fær sér skyr á hverjum degi enda mikill Íslendingur í sér.

Íslenska skyrið hefur slegið rækilega í gegn í Bandaríkjunum, og er það m.a. Smára Ásmundssyni að þakka, stofnanda Smári Organics sem framleiðir eina lífræna skyrið á Bandaríkjamarkaði. Fyrirtækið, sem er með aðsetur í Kaliforníu, selur skyrið í um 3.000 verslunum um landið allt og hefur hlotið fjölmargrar viðurkenningar og verðlaun.

Hafnfirðingurinn Smári Ásmundsson borðaði mikið skyr þegar hann var að alast upp og stundum jafnvel bæði á morgnana og í hádeginu. Hann man þá tíma þegar fjölskyldan keypti skyr í pokum í Borgarnesi á leið heim frá Snæfellsnesi í Hafnarfjörðinn, og mamma hans hrærði skyrið sjálf og bætti út í það sykri og mjólk til að gera það bragðgott. Síðastliðið ár seldi Smári fjórar milljónir skyrdósa í tólf bragðtegundum um öll Bandaríkin, en fyrirtækið stofnaði hann árið 2012 og fyrstu skyrdósirnar komu í búðir í janúar 2013.
Súkkulaðifrauð eftir Smára Ásmundsson.
Súkkulaðifrauð eftir Smára Ásmundsson.


Blaðamaður rétt náði í skottið á Smára áður en hann hélt af stað í ferðalag með átta ára syni sínum Gabríel. „Það er vorfrí í skólanum svo við ætlum að fara saman í útilegu á ströndina hérna rétt hjá okkur,“ segir Smári, en þeir feðgar búa í bænum Petaluma sem er um klukkustundarakstur norður af San Fransisco og þar sem Smári Organics er með höfuðstöðvar sínar. „Þetta er lítill bær með um 60.000 íbúum, flottur staður fyrir krakka og bara klukkustund á flugvöllinn sem er fínt því ég ferðast svakalega mikið.

Meiri áhuga á mat en ljósmyndun

„Ég flutti til Kaliforníu fyrir löngu, eða strax eftir að ég kláraði Versló árið 1990. Ég lærði ljósmyndun í Brooks Institute of Photography í bænum Santa Barbara. Eftir það vann ég sem auglýsingaljósmyndari og gekk rosalega vel. Myndirnar mínar voru í Vogue, Rolling Stone og öllum þessum helstu tímaritum, og ég var með kúnna eins og Rolex og Volkswagen. Það var mjög fínt en í kringum fertugt var mig farið að langa að breyta til. Ég var nýorðinn pabbi og ákvað í raun að breyta lífinu algjörlega og byrja upp á nýtt,“ segir Smári. „Ég var farinn að sjá að ég hafði meiri áhuga á mat en auglýsingum, og vildi prófa eitthvað nýtt í þeim geira. Ég las mér heilmikið til um mismunandi matarfyrirtæki og hvernig fyrirtæki væri mögulega sniðugt að stofna. Á þeim tíma var grísk jógúrt frá fyrirtækinu Chobani að slá í gegn hér í Ameríku, en ég vissi alltaf að íslenska skyrið væri miklu betra. Það inniheldur meira prótín og hefur betri áferð,“ segir Smári.

Bláberja- og bananapönnukökur Smára Ásmundssonar.
Bláberja- og bananapönnukökur Smára Ásmundssonar.


Mörg ár að fullkomna skyrið

„Skyrið var auk þess sá matur sem ég saknaði mest að heiman. Þótt ég hafi búið hér í Kaliforníu rúmlega hálfa ævina er ég alltaf voða íslenskur. Ég var lengi búinn að prófa mig áfram í að gera skyr fyrir mig og soninn og það varð alltaf betra og betra,“ segir Smári, sem hafði gamlan fjölskylduvin á Egilsstöðum á hliðarlínuna sem hjálpaði honum að leiðrétta mistök við vinnslu, sem voru töluverð í byrjun.

„Skyr er voðalega einfaldur matur en það er ekki einfalt að gera það vel. Það tók heillangan tíma. Ég var búinn að vera að búa til skyr í um tíu ár áður en ég byrjaði að selja það.

– Af hverju kallarðu skyrið þitt „Organic Icelandic yogurt“ en ekki skyr?

„Við köllum skyrið okkar lífræna íslenska jógúrt af því að þetta er þannig séð ný vörutegund og það tekur fólk oft langan tíma að prófa eitthvað nýtt. Með þessu nafni helst þessi spennandi tenging við Ísland, en er þó á sama tíma ekki algerlega framandi. Líkt og gríska jógúrtin, hún á sér eitthvert grískt nafn, en er bara kölluð jógúrt hér.“

Smáraskyr.
Smáraskyr.


Tómar hillur dýrt vandamál

Smári segir þá feðga borða skyr á hverjum degi. „Nýjasta bragðtegundin okkar er mangó og það er uppáhaldið hans Gabríels núna.“

– Á mínu heimili er kókoshnetuskyrið ykkar vinsælast en það er alltaf búið í búðunum!

„Já, er það? Ha, ha, þetta er algengt vandamál hjá okkur. Fólk er alltaf að kvarta yfir að hillurnar í búðunum séu tómar. Það er dýrt vandamál, því það selst ekkert á meðan. Kókoshnetuskyrið gengur rosalega vel, en það ásamt vanillu og „key lime“ eru vinsælustu bragðtegundirnar okkar. Við vorum að koma með mangó og brómber og ég býst við að báðar þessar bragðtegundir eigi eftir að ganga mjög vel,“ segir Smári sem um daginn fékk tvöfalda viðkenningu fyrir vanilluskyrið sitt frá megrunar- og heilsutímaritinu Eat This, Not That. Tímaritið Men's Health valdi svo Smáraskyrið bestu fæðuna til vöðvauppbyggingar, auk þessem Smári vann gullverðlaun á US Championship Cheese Contest 2017, sem er stærsta osta-, smjör- og jógúrtkeppnin í Bandaríkjunum. Allt þetta bara það sem af er liðið þessu ári.

Prótín og góð mjólkurfita

Siggi's er annað íslensk fyrirtæki sem hefur gert skyrið vinsælt í Bandaríkjunum, og nú er einnig fyrirtækið Icelandic Provisions, sem tengist við Mjólkursamsöluna, farið að selja skyr í Bandaríkjunum.

Smári og Gabríel eru hressir feðgar sem fá sér skyr …
Smári og Gabríel eru hressir feðgar sem fá sér skyr á hverjum degi og eru miklir Íslendingar í sér.


„Siggi kom inn á markaðinn 5 eða 6 árum á undan okkur. Aðalmunurinn á okkar skyri og hans er sá að mitt er lífrænt en hans ekki, og það finnst mér skipta miklu máli. Ég held að fyrir fólk sem hugsar um heilsuna skipti það líka máli,“ segir Smári. „Þetta er það stór markaður að við Siggi þurfum ekki að vera í neinni samkeppni, það er nóg pláss fyrir okkur báða,“ segir Smári sem segist lítið þekkja til Icelandic Provisions skyrsins.

– En af hverju eru Bandaríkjamenn svona hrifnir af íslensku skyri?

„Skyrið er betra en heimsins besta jógúrt, er það ekki?“ spyr Smári hlæjandi á móti.

„Áður fyrr var jógúrtin hér full af sykri og aukaefnum og fólk borðaði ekki mikið af henni, en það er að breytast. Fólk er farið að átta sig á því að gerlar eru mjög góðir og að skyrið er fullt af prótíni. Það vill borða vel og gerir sér grein fyrir að skyrið er svakalega holl og góð vara. Mikill hluti af því er prótín innihaldið, ekki síst ef fólk er grænmætisætur. Við erum með sex fitulausar bragðtegundir og átta með nýmjólk. Nýmjólkin er vinsælli núna, því fólk veit núorðið að fita er nauðsynleg heilsunni, mjólkurfita er góð fita og það er allt betra á bragðið þegar það er smá fita í því.“

Skyr er frábært hráefni

Ævintýrið er rétt að byrja og Smári er með ýmislegt á prjónunum. Hann og félagarnir eru að huga að framleiðslu fleiri mjólkurvara en skyrsins, en það er leyndarmál eins og málin standa núna. Smári er einnig byrjaður að vinna að matreiðslubók sem hann vonast til að komi út eftir svona um tvö ár, en hann hefur mikinn áhuga á gömlum aðferðum við matargerð og lítið unnum mat.

„Skyr er frábært hráefni í svo margt,“ segir Smári sem er meira en tilbúinn að deila nokkrum uppskriftum sínum með lesendum Morgunblaðsins.

Súkkulaðimousse

Fyrir: 6
460 g Smári hreint fitulaust skyr
255 g 70% hágæða dökkt súkkulaði, saxað smátt
240 ml mjólk og rjómi blandað saman
40 g sykur
120 ml rjómi
1 msk Grand Marnier eða
Bourbon viskí
1/4 tsk salt
240 ml rjómi, borið með fram
(þeytið rjómann með smá sykri)
súkkulaðispænir og fersk ber, borin með fram

1. Hitið vatn á meðalhita í tvöföldum potti. Hrærið saman mjólkur/rjómablöndunni, sykri og salti. Þeytið reglulega í 5-7 mín. eða þar til hún er orðin mjög heit viðkomu (75°C). Leyfið henni ekki að sjóða, þá brennur hún.

2. Slökkvið á hellunni. Bætið súkkulaðinu út í mjólkur/rjómablönduna. Leyfið að standa ósnert í um mínútu. Blandið varlega saman með sleikju þar til súkkulaðið er alveg blandað saman við; hvorki rákir né súkkulaðikekkir. Takið af hitanum/hellunni.

Ath! Ef súkkulaðið blandast ekki fullkomlega saman við eftir eina mínútu, skellið þá pottinum á volga helluna og blandið betur saman.

3. Þeytið skyrið til að létta það og slétta með viski (1-2 mín.). Þeytið rjómann í annarri skál og setjið til hliðar.

4. Hrærið í heitri súkkulaðiblöndunni og hellið út í skyrið. Notið sleikju til að ná öllu súkkulaðinu. Bætið áfenginu út í, ef vill.

5. Notið sleikjuna til að blanda súkkulaðiblöndunni og skyrinu varlega en vel saman. Hrærið rjómanum varlega saman við, þar til áferðin er létt og loftkennd.

6. Deilið blöndunni í sex litlar skálar. Sléttið og snúið yfirborðinu með lítill skeið. Geymið í ísskáp í 2 klst. Berið fram kalt með slettu af þeyttum rjóma, súkkulaðispæni og ferskum ávöxtum.

Bláberja- og bananapönnukökur

Fyrir: 6
250 g hveiti
3 msk sykur
2 tsk lyfiduft
1 tsk matarsódi
Klípa af salti
2 meðalstór egg, létthrærð
510 g Smári bláberjaskyr
300 ml vatn
120 g velþroskaður banani í þunnum sneiðum
130 g bláber
Bragðlítil grænmetisolía eða smjör, til steikingar
Hlynsýróp og smjör, borið með fram

1. Blandið saman hveiti, sykri, matarsóda, lyftidufti og saltklípunni.

2. Hrærið saman eggjum, bláberjaskyrinu og vatni þar til vel mjúkt. Hellið þessu út í þurrefnin og hrærið vel.

3. Hitið pönnu á meðal-lágum hita. Smyrjið hana létt með smjöri eða olíu.

4. Ausið ¼ bolla af deiginu á pönnuna. Dreifið bláberjum og banönum á pönnukökurnar með sentimetra millibili. Snúið pönnukökunni við þegar loftbólur myndast, og steikið hana þar til hún er ljósbrún.

5. Berið fram með hlynsýrópi og smjöri.
smariorganics.com facebook: Smári Organics
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert