Andlát: Sverrir Pálsson

Sverrir Pálsson
Sverrir Pálsson

Sverrir Pálsson, fyrrverandi skólastjóri, lést á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri föstudaginn 24. mars, 92 ára að aldri.

Sverrir fæddist á Akureyri 28. júní 1924, sonur hjónanna Sigríðar Oddsdóttur húsmóður og Páls Sigurgeirssonar kaupmanns. Sverrir varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1942 og vantaði þá rúma viku upp 18 ára aldurinn. Hann lauk cand. mag.-prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands árið haustið 1947, réttra 23 ára gamall, og hafði þá enginn lokið því prófi svo ungur. Þá um haustið hóf hann kennslu við Gagnfræðaskóla Akureyrar og varð skólinn starfsvettvangur hans alla tíð, í 42 ár. Hann var skólastjóri frá 1963 til starfsloka sumarið 1989.

Sverrir stóð að veglegri sögusýningu Akureyrar á aldarafmæli kaupstaðarins árið 1962 og var í stjórn Minjasafnsins á Akureyri í tvo áratugi. Hann starfaði í samtökum kennara og sat í stjórn Norræna félagsins á Íslandi árin 1971-77. Þá sat hann í þjóðhátíðarnefnd Akureyringa og Eyfirðinga árin 1973-74.

Loks eru ótalin þau störf sem Sverrir vann í þágu lista. Hann söng í kórum um árabil norðan og sunnan heiða og var oft einsöngvari. Sverrir var hagorður og gaf út ljóðabækur. Loks má nefna að á efri árum hóf hann nám í listmálun og hélt stóra sýningu á verkum sínum áttræður.

Eiginkona Sverris, Ellen Lísbet Pálsson, lifir mann sinn ásamt fjórum börnum þeirra hjóna, Sigríði, Lárusi, Ingu Björgu og Páli.

Sverrir Pálsson var fréttaritari Morgunblaðsins á Akureyri um tveggja áratuga skeið, frá 1963 til 1983. Þetta erilsama starf annaðist Sverrir með fullri vinnu og skilaði því með miklum sóma. Við leiðarlok þakkar Morgunblaðið Sverri störf hans fyrir blaðið og sendir aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.

Útför Sverris Pálssonar verður gerð frá Akureyrarkirkju fimmtudaginn 6. apríl klukkan 10.30.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert