Leiðir ekki til færri ferðamanna

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála. mbl.is/Golli

Ákvörðun fjármálaráðherra um að færa ferðaþjónustuna í hærra virðisaukaskattþrep er í fullu samræmi við stefnu stjórnvalda um að fækka undanþágum í virðisaukaskattkerfinu segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, en Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, mun á morgun kynna fjármálaáætlun ríkisins sem felur m.a. í sér breytingar á virðisaukaskattkerfinu.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra greindi fyrstur frá áformunum á ársfundi Samtaka atvinnulífsins í gær en skömmu áður voru forystumenn ferðaþjónustunnar boðaðir á fund Þórdísar Kolbrúnar og Benedikts og þeim gerð grein fyrir fyrirhugðum breytingum. Fer ferðaþjónustan úr 11 prósenta virðisaukaskattþrepi upp í það hærra, sem nú er 24 prósent en stendur til að lækka samhliða breytingunni niður í 22,5 prósent.

Á neyðarfundi ferðaþjónustunnar á Hótel Sögu í dag var samráðsleysið gagnrýnt harðlega en fréttirnar leggjast mjög illa í ferðaþjónustufyrirtæki. Voru áform ríkisstjórnarinnar sögð „blaut tuska í andlitið“ og „reiðarslag fyrir ferðaþjónustu“ á fundinum.

Ferðaþjónustan hefur eins og útflutningsatvinnugreinar landsins fundið fyrir áhrifum af styrkingu krónunnar en ferðamenn eyða minna hér á landi en þeir gerðu þegar krónan var veikari. Komu tíðindin því nokkuð á óvart að því er fram kom í samtölum við atvinnurekendur í ferðaþjónustu á neyðarfundinum í dag.

Grímur Sæmundsen, formaður SAF og forstjóri Bláa lónsins, sagði til að mynda í framsögu sinni á fundinum í dag að afkoma ferðaþjónustunnar hafi versnað á milli áranna 2015 og 2016 þrátt fyrir fjölgun ferðamanna. Ferðaþjónustufyrirtækjum sé þrengri stakkur sniðinn í ljósi erfiðara rekstrarumhverfis.

Ferðaþjónustan hefur slitið barnsskónum

Í samtali við mbl.is segir Þórdís Kolbrún að erfitt sé að hafa samráð um breytt virðisaukaskattþrep þar sem aldrei hafi komið til greina að fjölga skattþrepum og búa til milliþrep fyrir ferðaþjónustuna. Ferðaþjónustan er atvinnugrein sem búin er að slíta barnsskónum, segir Þórdís Kolbrún, og því sé tímabært að atvinnugreinin fari í hærra skattþrep en verði ekki áfram í undanþáguskattþrepi.

Spurð út í áhrifin segir hún að greiningarvinna fjármálaráðuneytisins bendi til þess að skattahækkunin á ferðamenn hægi á fjölgun ferðamanna hingað til lands, en fækki þeim ekki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert