Óprúttinn leigusali í gæsluvarðhald

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Þekktur svikahrappur hefur verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna að beiðni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Fjölmargir hafa kært manninn á síðustu dögum og vikum vegna svika og pretta. Hann á sér langa sögu og hefur áður hlotið þungan dóm fyrir fjárdrátt, segir í frétt á Vísi um málið í gærkvöldi.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við Vísi að maður sé í haldi lögreglu grunaður um fjársvik tengd leigustarfsemi. „Það er rétt að við yfirheyrðum í fyrradag mann sem grunaður er um fjársvik í tengslum við leigu íbúðarhúsnæðis. Vegna rannsóknarhagsmuna var hann í gær úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald,“ segir Grímur í samtali við Vísi.

„Ég get ekki farið nánar út í það en við munum vinna að rannsókn þessara mála áfram og afla okkur allra nauðsynlegra upplýsinga á meðan.“

Maðurinn hefur ítrekað gerst milliliður fyrir fólk í leit að húsnæði til leigu. Hann tekur íbúðir á leigu og framleigir þær öðrum, stelur undan leigugreiðslum þeirra og aðeins er greitt fyrir fyrsta mánuðinn til réttra eigenda.

Lögreglan gerir sér ekki alveg grein fyrir því á þessari stundu hversu mörg málin verða þegar öll kurl verða komin til grafar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert