Hækkuð níu mánuði aftur í tímann

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis.
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis. mbl.is/Golli

Kjararáð hefur úrskurðað að laun Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis, skulu hækkuð og að launahækkunin nái níu mánuði aftur í tímann. Það er til 1. júlí 2016 þegar ráðið ákvað að hækka laun ráðuneytisstjóra um 20%. Mánaðarlaun Helga verða nú rúmlega 1,8 milljón krónur eða áþekk launum ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins.

Fram kemur í úrskurðinum að tilefni hans sé bréf frá Helga þar sem óskað var eftir því að laun hans væru tekin til endurskoðunar. Þar segir ennfremur að embætti skrifstofustjóra Alþingis lúti ekki aðeins að stjórn skrifstofunnar og starfsmannahaldi heldur hafi skrifstofustjórinn líka umsjón með þeirri aðstoð sem 63 alþingismenn og átta þingnefndir fá. Hann aðstoði einnig forseta Alþingis í störfum hans. Alþingi sé vinnustaður um 200 manns.

Helgi segir áfram í bréfinu að ætla megi að yfirvinna hans sé að jafnaði meira en 50 stundir á mánuði en auk þess meira en tíu klukkustundir að jafnaði eftir sjö á kvöldin. Skrifstofustjórinn sé á stöðugri vakt. Á kvöldin, yfir helgar og í leyfum séu oft mikil samskipti við forseta þingsins, formenn stjórnmálaflokka og þingflokka um pólitísk mál, oft tengd nýliðnum atburðum sem kalli á viðbrögð á þingi sem þurfi að undirbúa ýmist með símhringingum, dagskrárbreytingum eða skipulagningu umræðna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert