Þrjár nýjar þyrlur á næstu fimm árum

TF-LÍF á Reykjavíkurflugvelli. Kaupa á þrjár nýjar þyrlur á næstu …
TF-LÍF á Reykjavíkurflugvelli. Kaupa á þrjár nýjar þyrlur á næstu fimm árum. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Á næstu fimm árum er fyrirhugað að ráðast í kaup á þremur þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, klára Dýrafjarðargöng og taka nýjan Herjólf í gagnið. Þá á að auka fjárfestingu í vegakerfið og viðhald vega og ljúka ljósleiðaravæðingu landsins. Þetta er meðal þess sem kemur fram í fjármálaáætlun ríkisins til næstu fimm ára sem kynnt var í morgun.

Stofnframlög fyrir leiguíbúðir

Þá er stefnt að því að byggja nýtt framtíðarhúsnæði fyrir stjórnarráðið sem muni lækka rekstrarkostnað ríkisins til lengri tíma. Leggja á fram stofnframlög til byggingar almennra leiguíbúða til að mæta vaxandi húsnæðisþörf.

Í fyrri frétt mbl.is kom fram að gert væri ráð fyrir að upp­safnaður raun­vöxt­ur út­gjalda til heil­brigðismála á tíma­bil­inu verði 22% og 13% til vel­ferðar­mála. Þá á að hækka greiðslur foreldra í fæðing­ar­or­lofi. Frí­tekju­mark vegna at­vinnu­tekna eldri borg­ara verður hækkað í skref­um og bóta­kerfi ör­yrkja verður end­ur­skoðað, út­gjöld auk­in og aðstoð við at­vinnu­leit sömu­leiðis.

Þá á einnig að halda áfram að greiða niður skuldir ríkissjóðs og gera breytingar á skattakerfinu, meðal annars að mest öll ferðaþjónusta færist í hærra skattþrep og að almenna skattþrepið lækki úr 24% í 22,5%.

Útköllum björgunarþyrla fjölgað um 80%

Í greinargerð fjármálaáætlunarinnar kemur fram að útköllum björgunarþyrla vegna innlendra og erlendra ferðamanna í vandræðum hafi fjölgað mikið á undanförnum árum eða ríflega 80% milli áranna 2008 og 2016. Þessi aukning hafi áhrif á rekstur gæslunnar og tvísýnt sé hvort hægt sé að halda uppi nauðsynlegri þjónustu þar sem áhafnir séu ekki nægilega margar til að bregðast við þessu ástandi.

Þá er bent á að ekkert útkallshæft skip hafi verið til reiðu 165 daga árið 2016. Í dag séu gerð út skipin Þór og Týr sem séu með tvær áhafnir hvort. Ægir er aftur á móti ekki haffær. Það hefur því tekið varðskip allt að 48 klukkustundir að komast á vettvang slysa eða óhappa innan efnahagslögsögunnar.

Kostnaður við að bæta við áhöfn er áætlaður um 330 milljónir en til að halda skipi í fullri nýtingu þarf tvær áhafnir. Til þess að stytta viðbragðstíma niður í 24 klukkustundir þarf að fjölga skipum í notkun og áhöfnum en ekki er svigrúm til þess í fjármálaáætlun 2018–2022.

Fjármálaáætlun 2018-2023 í heild.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert