Trommusettinu hent út af elliheimilinu

Dieder Vilhjálmur Johannesson er 81 árs og byrjaði að læra …
Dieder Vilhjálmur Johannesson er 81 árs og byrjaði að læra á trommur fyrir átta árum. Ljósmynd/Tónlistarkóli Rangæinga

„Þau sögðu alltaf við mig; „það eru svo mikil læti þegar þú spilar á trommurnar”,” segir Dieter Vilhjálmur Johannesson, trommuleikari á níræðisaldri og hlær. Dieter æfði sig á trommusettið sitt á Kirkjuhvoli dvalar- og elliheimili á Hvolsvelli, þar sem hann býr, þar til nýverið að trommusettinu hans var pakkað niður í geymslu. Við þessum kvörtunum hinna íbúanna yfir hávaða benti Dieter á að það væri mun meiri hávaði í sjónvarpinu en af spilamennsku sinni á trommurnar. Því voru aðrir íbúar ekki endilega sammála.

Dieter lætur þetta ekki stöðva sig heldur gengur á hverjum degi í Tónlistarskóla Rangæinga og æfir sig þar á trommusettinu að vild. Hann var á áttræðisaldri þegar hann byrjaði að spila á trommur í Tónlistarskólanum fyrir átta árum og hefur nú lokið fyrsta stigi og er jafnframt elsti nemandi skólans.  

Spilar á meðan heilsan leyfir 

Dieter hefur brennandi áhuga á hljóðfærinu og segist ætla að halda áfram að spila og bæta sig á meðan heilsan leyfir. Af útliti hans og atgervi að dæma þá mun hann halda því áfram næstu árin ef ekki áratugina.  

Dieter hefur komið fram á hinum ýmsu samkomum á Hvolsvelli þar sem hann spilar á trommur en hann veit fátt skemmtilegra en að koma fram og skemmta fólki. Núna er hann að æfa sig á fullu fyrir afmælistónleika Tónlistarskóla Rangæinga sem er á sínu 60. starfsári.

Tónleikarnir verða haldnir 1. maí. Þar kemur hann fram með kennara sínum, Skúla Gíslasyni, og þeir ætla að spila tommudúett. „Hann hefur virkilega gaman að því að spila trommudúett,” segir Skúli sem byrjaði að kenna Dieter í haust og líkar mjög vel. En Dieter er með fyrstu nemendum sem Skúli kennir. 

Hvolsvöllur. Dieder kemur fram á afmælistónleikum Tónlistarskóla Rangæinga.
Hvolsvöllur. Dieder kemur fram á afmælistónleikum Tónlistarskóla Rangæinga.

Þyrfti að fá rafmagnstrommusett

„Hann æfir sig sennilega meira en allir nemendur mínir, að þeim ólöstuðum,” segir Skúli og brosir. Hann segir Dieter hafa náð ótrúlegum árangri miðað við hversu seint hann byrjaði að æfa sig. Í reynd sé hann býsna góður. „Hann gæti tekið annað stig fljótlega en ég vil ekki endilega að hann taki stig. Ég vil frekar undirbúa hann fyrir að spila fyrir framan fólk því honum þykir það langskemmtilegast,” segir Skúli.

Í haust breyttu þeir áherslunum í kennslunni og segir hann að Dieter hafi tekið því fagnandi en hann er mjög áhugasamur og duglegur nemandi og fróður um tónlist. Skúli segir hann líka duglegan við að láta vita hvað honum líkar.

„Núna þarf hann bara að fá sér rafmagnstrommusett svo hann geti haldið áfram að æfa sig,“segir Skúli.

Prjónar, saumar og stundar garðyrkjustörf

Dieter er orkumikill og tekur virkan þátt í öllu félagslífi. Hann fer fótgangandi allra sinna ferða og setur sterkan svip sinn á bæinn. Honum er margt til lista lagt; saumar út í Njálureflinum sem er í Sögusetrinu á Hvolsvelli, prjónar og sinnir garðyrkjustörfum svo fátt sé nefnt.

Dieter er fæddur 5. janúar 1936 og fæddist í Þýskalandi og er garðyrkjufræðingur að mennt. Hann flutti til Íslands árið 1998  og hefur verið hér síðan en kom til landsins því hann langaði að kynnast landinu betur. Fyrst fór hann í Þórsmörk og heillaðist af náttúrunni eftir það hefur starfaði hann sem vinnumaður á hinum ýmsu bæjum í Landeyjum á Suðurlandi, við garðyrkju og almenn sveitastörf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert