Hlaut skilorðsbundinn dóm fyrir vörslu nærri 50.000 barnaníðsmynda

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is

Þekktur barnaníðingur hefur verið dæmdur í 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa í vörslum sínum 48.212 ljósmyndir og 484 hreyfimyndir sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt.

Maðurinn, Gunnar Jakobsson, sem áður hét Roy Svanur Shannon, játaði brotið og ákvað dómari við Héraðsdóm Suðurlands að skilorðsbinda dóminn á grundvelli játningarinnar og þess að verulegur dráttur hefði orðið á rannsókn málsins, sem hófst í janúar 2013.

Það var RÚV sem greindi fyrst frá málinu en athygli vekur að í dóminum segir að samkvæmt framlögðu sakavottorði hafi ákærði ekki áður sætt refsingu. Hið rétta er að Gunnar, þá undir nafninu Roy Svanur Shannon, var dæmdur í 4 ára fangelsi árið 1997 fyrir kynferðisbrot gegn sex stúlkum og fyrir að dreifa klámefni á netinu.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi ákærði Gunnar í desember fyrir hegningarlagabrot með því að hafa í janúar 2013 og um nokkurt skeið haft í vörslum sínum samtals 48.212 ljósmyndir og 484 hreyfimyndir er sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt.

Gunnar var einnig ákærður fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa í apríl í fyrra haft í vörslu sinni 175,12 g af maríhúana, 45,58 g af kannabislaufum og 47,12 g af kannabisstönglum sem lögregla fann við leit í bifreið hans eftir að hafa stöðvað akstur hans.

Fram kemur í dómnum, að Gunnar hafi komið fyrir dóminn 16. mars þar sem hann viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru. Taldi dómari ekki ástæðu til að draga í efa að játningin væri sannleikanum samkvæm.

Tekið er fram í dómnum, að samkvæmt framlögðu sakavottorði hafi Gunnar ekki áður sætt refsingu. Það er hins vegar ekki í samræmi við dóminn sem maðurinn hlaut árið 1997 sem Roy Svanur Shannon.

„Refsing ákærða er hæfilega ákveðin fangelsi í átján mánuði. Að teknu tilliti til þess að verulegur dráttur varð á rannsókn málsins, sem ekki verður séð að ákærða sé um að kenna, og að teknu tilliti til skýlausrar játningar ákærða, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð,“ segir í dómi héraðsdóms.

Gunnar var dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðnar, samtals 592.413 króna. Þá voru 48.212 ljósmyndir og 484 hreyfimyndir er sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt gerðar upptækar, sem og harðir diskar, DVD-diskur, 19 CD-diskar og turntölva.

Einnig voru 175,12 g af maríhúana, 45,58 g af kannabislaufum og 47,12 g af kannabisstönglum gerð upptæk.

Dómur héraðsdóms

Greinasafn Morgunblaðsins: Kynferðisbrot gegn sex stúlkum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert