Gaf ráðherranum „HeForShe” barmmerki

Gabriel og Guðlaugur Þór.
Gabriel og Guðlaugur Þór. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fundaði í dag með Sigmar Gabriel utanríkisráðherra Þýskalands í Berlín, þar sem þeir ræddu tvíhliðamál og þau málefni sem hæst ber á alþjóðavettvangi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Í gærkvöldi var Guðlaugur Þór viðstaddur kynningu í sendiráðsbústað Íslands í Berlín á “Out of Controll” verkefni myndlistarmannsins Egils Sæbjörnssonar sem verður, ásamt tveimur tröllum, fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum nú í sumar. 

Á fundi ráðherranna í morgun var rætt um góð samskipti ríkjanna á sviði viðskipta-, ferða-, og menningarmála. Einnig var rætt um alþjóða- og öryggismál sem hæst bera, svo og svæðisbundna samvinnu innan Eystrasaltsráðsins og á Norðurslóðum, en Þjóðverjar eru áheyrnarfulltrúar að Norðurskautsráðinu.

„Þetta var góður fundur. Þýskaland er leiðandi ríki í heiminum í dag, og eitt helsta samstarfsríki okkar Íslendinga. Samskipti Íslands og Þýskalands eru náin og ræddum við viðskipti, fjárfestingar, menningu, svo og öryggis- og varnarmál í Evrópu og loftslagsmál með áherslu á Norðurslóðir,“ sagði Guðlaugur Þór eftir fundinn en ráðherrarnir ræddu einnig það flókna ferli sem framundan er vegna Brexit, bæði fyrir aðildarríki Evrópusambandsins og EES-ríkin.

Guðlaugur lagði mikla áherslu á góða vináttu landanna. Hann nefndi að Ísland styddi Þýskaland til tímabundinnar setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna árin 2019 - 2020, og fagnaði því að ein megináhersla þýska framboðsins yrði að efla jafnrétti á alþjóðavettvangi. 

Máli sínu til stuðnings gaf Guðlaugur Þór þýska ráðherranum „HeForShe” barmmerkið sitt að gjöf og óskaði honum góðs gengis í jafnréttismálunum.

Þjóðverjar eru þriðji fjölmennasti hópur ferðamanna til Íslands. Notaði Guðlaugur Þór tækifærið til að leggja til nánara samráð stjórnmálamanna og háttsettra embættismanna en hingað til. Gabriel þáði boð Guðlaugs Þórs um að sækja fund utanríkisráðherra Eystrasaltsríkjanna í Reykjavík í júní. Þá sagði Guðlaugur það ósk Íslendinga að Goethe stofnunin tæki upp starfsemi á Íslandi á nýjan leik, hugsanlega í tengslum við stofnun Vigdísar Finnbogadóttur.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert