Úr ys og þys borgarinnar í sveitasæluna

Anna Lilja (f. miðju) ásamt Sólrúnu Siggeirsdóttur, hjúkrunarfræðingi, og Sigurði …
Anna Lilja (f. miðju) ásamt Sólrúnu Siggeirsdóttur, hjúkrunarfræðingi, og Sigurði Halldórssyni, lækni, eftir flugslysaæfingu.

Anna Lilja Ómarsdóttir, hjúkrunarfræðingur, býr ein með einhverfum syni sínum. Hún starfaði á Landspítalanum í Reykjavík og síðan á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og líkaði vel í starfi sínu. Draumurinn var þó að flytja út á land í rólegt umhverfi með drenginn sinn og fyrir valinu varð Þórshöfn á Langanesi.

Hjúkrunarfræðingurinn Anna Lilja Ómarsdóttir ákvað í fyrrahaust að söðla um og flytja frá Reykjavík alla leið til Þórshafnar en lengra kemst hún varla frá borginni.
„Ég átti mér lengi þann draum að prófa að búa úti á landi en það er stór ákvörðun einkum vegna þess að ég bý ein með syni mínum, Daniel Ómari, sem er með ódæmigerða einhverfu. Hann er því með ýmsar sérþarfir og þolir illa breytingar. Stutt dvöl úti á landi í fyrrasumar varð til að hreyfa við okkur mæðginunum fyrir alvöru, okkur leið vel í sveitakyrrðinni og gátum bæði hugsað okkur búsetu í rólegu umhverfi,“ segir Anna Lilja.
Daniel Ómar unir sér vel fyrir norðan. Hann hefur t.d. …
Daniel Ómar unir sér vel fyrir norðan. Hann hefur t.d. skoðað sig um í Ásbyrgi, heimsótt Fjallalamb á Kópaskeri og veitt fisk á Þórshöfn.


Þegar hún sá auglýsta stöðu hjúkrunarfræðings á Þórshöfn ákvað hún að kanna málið og áður en hún vissi af var hún komin til Þórshafnar. Henni leist strax vel á staðinn og fólkið og ágætt húsnæði fylgdi starfinu.

Opin umræða um einhverfu

Anna Lilja segir fyrstu dagana á Þórshöfn vera minnisstæða en þangað fluttu mæðginin í lok september ásamt kettinum Lottu. Haustið var gott, nánast samfelld blíða fram í nóvember, mæðginin hjóluðu í skóla og vinnuna á nokkrum mínútum, ekkert umferðarstress.

„Samfélagið tók okkur vel og skólinn fór ágætlega af stað hjá Daniel, sem var þá átta ára. Hann var strax tekinn í hópinn og ákvað sjálfur að ræða opinskátt við krakkana um að hann væri með einhverfu.

Daniel Ómar unir sér vel fyrir norðan. Hann hefur t.d. …
Daniel Ómar unir sér vel fyrir norðan. Hann hefur t.d. skoðað sig um í Ásbyrgi, heimsótt Fjallalamb á Kópaskeri og veitt fisk á Þórshöfn.


Hann sagði þeim að sinn heili væri öðruvísi en hjá hinum krökkunum og þess vegna gerði hann stundum hluti sem hann vildi ekki endilega gera. Það hefur hjálpað upp á skilning og umburðarlyndi hjá samnemendum hans.“

Anna Lilja segist í heildina vera mjög ánægð með skólavist Daniels á Þórshöfn, þó vissulega skiptist þar á skin og skúrir. Skólinn er lítill, um sjötíu börn og telur Anna Lilja það henta einhverfu barni betur en stærri skólar.

Ágætlega er komið til móts við hans sérþarfir og farið þar eftir ráðleggingum barnageðlæknis Daniels en Anna Lilja er í fjarsambandi við hann eftir að mæðginin fluttu frá Reykjavík. Í skólanum er leitast við að draga úr áreiti og mæta þörfum Daniels og þannig nær hann oftast að ljúka sínum skólaverkefnum og segir móðir hans það mikla framför.

Daniel Ómar unir sér vel fyrir norðan. Hann hefur t.d. …
Daniel Ómar unir sér vel fyrir norðan. Hann hefur t.d. skoðað sig um í Ásbyrgi, heimsótt Fjallalamb á Kópaskeri og veitt fisk á Þórshöfn.


Anna Lilja nefnir fleiri kosti við búsetu á landsbyggðinni, hér hafi börnin mikið frelsi og það hafi gert Daniel gott að geta leikið sér meira úti. Hér upplifi hann meira öryggi, minni hættur og svæðið sé minna.

„Vissulega hafa flutningarnir stundum tekið á og hann fær heimþrá öðru hvoru en við erum dugleg að fara suður og heimsækja fólkið okkar. Allt hefur þó bæði kosti og galla,“ segir Anna Lilja: „Helsti gallinn við það að búa hér er að mínu mati sá, að erfitt er að sækja sérfræðiþjónustu og þar af leiðandi höfum við fengið minni aðstoð með röskun Daniels. Ég er sem betur fer búin að afla mér þekkingar í mörg ár en það má segja að maður verði sjálfur að gerast hálfgerður sérfræðingur í greiningu barnsins, einkennum og úrræðum; vita hvað hjálpar og hvað virkar best.“

Það kom Önnu Lilju á óvart hversu auðvelt henni reyndist að aðlagast nýja umhverfinu. Henni fannst eins og hún væri komin heim. Hún hefur eignast góða vini og vinnufélaga, starfið á Heilsugæslunni á Þórshöfn er fjölbreytt og krefjandi, enginn dagur er eins.

Daniel Ómar unir sér vel fyrir norðan. Hann hefur t.d. …
Daniel Ómar unir sér vel fyrir norðan. Hann hefur t.d. skoðað sig um í Ásbyrgi, heimsótt Fjallalamb á Kópaskeri og veitt fisk á Þórshöfn.


Hlutverk og störf hjúkrunarfræðinga á landsbyggðinni eru að hennar sögn oft fjölbreyttari en hjá þeim sem vinna á stærri stöðum, þeir sinna t.d. ýmsu sem aðrar starfsstéttir sjá vanalega um og líkar Önnu sú fjölbreytni vel. Enginn læknir er búsettur á Þórshöfn og því tekur hún bakvaktir á móti öðrum heilbrigðisstarfsmönnum á Þórshöfn.

Frá flugslysaæfingu í Sjúkraflutningaskólann

Stuttu eftir að Anna Lilja flutti til Þórshafnar var haldin þar stór flugslysaæfing og fékk hún hlutverkið aðhlynningarstjóri, sem hefur umsjón með sjúkrahjálp og fjöldahjálp á hópslysavettvangi.

„Æfingin reyndi mikið á en tókst vel og vakti hjá mér áhuga á að læra meiri bráðahjúkrun til að fá betri á þekkingu á alvarlegri tilvikum. Hjúkrunarfræðinámið kemur vissulega inn á bráðahlutann en ekki nógu mikið. Ég var í vafa um hvaða nám nýttist mér best en þá benti læknir á staðnum mér á nám hjá Sjúkraflutningaskóla Íslands.“

Anna Lilja og Daniel Ómar slappa af í jarðbaði við …
Anna Lilja og Daniel Ómar slappa af í jarðbaði við Mývatn.


Anna Lilja sá þar tækifæri til að styrkja sig frekar í starfi og geta þjónað samfélaginu betur. Hún fékk inngöngu og byrjaði í náminu eftir áramótin og sér ekki eftir því. Í boði er bæði staðarnám og streymisnám, sem Anna kaus.

„Námið er mjög skemmtilegt og krefjandi, það er keyrt á miklum hraða á stuttum tíma því búið er að lengja grunnnámið um helming. Fyrirlestrarnir eru á netinu en verkleg kennsla á Akureyri svo þangað fer ég reglulega. Að loknum prófum hefst starfsnám á sjúkrabíl, sem ég tek í Reykjavík.“

Aðspurð segir Anna Lilja það hafa verið mikið púsl að láta hlutina ganga upp, einkum varðandi soninn: „Daniel hefur farið suður til fjölskyldunnar þegar ég er í námslotum á Akureyri. Hann er búinn að vera þolinmóður og duglegur; meira að segja farið einn í flugvél frá Akureyri og hefur það gefið honum mikið sjálfstraust.“

Eru ekki á förum

Meiraprófið er næsti áfangi Önnu Lilju til að geta orðið fullgildur sjúkraflutningamaður, einnig gekk hún til liðs við hóp Vettvangsliða (First responders) en þeir eru kallaðir út til aðstoðar ef hópslys ber að höndum. Hana langar einnig að fá að prófa að fara með í sjúkraflug fyrir norðan í sumar en það er annar starfsvettvangur sem henni finnst áhugaverður.

Anna Lilja (fjórða f.v. í efri röð) ásamt samnemendum sínum …
Anna Lilja (fjórða f.v. í efri röð) ásamt samnemendum sínum í Sjúkraflutningaskólanum, sem hún skellti sér í til að geta þjónað samfélaginu betur.


Mæðginin hafa framlengt dvöl sína á Þórshöfn til óákveðins tíma og hlakkar Anna Lilja til að halda áfram vinnu sinni á heilsugæslunni, kynnast bæjarbúum betur og vinna þeirra traust.

Í sumar hafa mæðginin ráðið til sín au-pair til aðstoðar, því engin gæsla eða frístund er á sumrin. Daniel þarf yfirleitt að hafa mikið fyrir stafni og einhverja stýringu þegar kemur að skipulagi dagsins svo erfitt er fyrir hann að vera einn allan daginn.

Anna Lilja telur sig hafa tekið rétta ákvörðun um að flytja út á land: „Daniel er ánægður og ég reyni að taka þátt í sem flestu sem í boði er til afþreyingar. Ég mæli hiklaust með því að ungir hjúkrunarfræðingar prófi að fara út á land. Þessi reynsla er ótrúlega dýrmæt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert