„Þetta er stór áfangi fyrir okkur“

Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, í göngunum.
Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, í göngunum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Það er auðvitað ákveðinn léttir fyrir okkur að það sé komin konnunarhola í gegn. Það staðfestir það að við erum á réttri leið. Það eru eftir sennilega einhverjir 35 metrar núna þannig að það ætti að vera nokkuð öruggt að klárað verði að bora á föstudaginn. Það gæti þó orðið fyrr,“ segir Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, í samtali við mbl.is en könnunarhola var boruð í gegnum haftið sem eftir er í gær eins og fréttavefurinn hefur greint frá.

Frétt mbl.is: Komnir í gegn með Vaðlaheiðargöng

„Eftir gegnumslagið þá má segja að hægt verði að núllstilla framkvæmdina og byrja að telja niður 15 mánuði. Núna á ekki neitt óvænt að gerast. Vitanlega getur eitthvað komið upp á eins og alltaf í svona framkvæmdum en núna verða menn ekki bundnir af boruninni. Núna munu þeir hafa 7,2 kílómetra til þess að vinna í og geta unnið alls staðar í göngunum,“ segir Valgeir. Fleiri verktakar komi í framhaldinu að framkvæmdinni sem sé þegar byrjuð.

„Þegar er til dæmis byrjað að vinna undirbúningsvinnu fyrir byggingu vegskála. Þannig að fleiri munu vinna í einu. Þetta eru áfangaskil,“ segir hann. Miklu meiri óvissa fylgi því þegar verið er að grafa sjálf göngin og ekki sé hægt að gera mikið annað á meðan. Eina markmiðið sé þá að lengja göngin. „Þetta er stór áfangi fyrir okkur og fyrir framkvæmdina sjálfa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert