Búinn með krabbameinsmeðferðirnar

Stefán Karl Stefánsson.
Stefán Karl Stefánsson. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Leikarinn Stefán Karl Stefánsson hefur lokið við geislameðferð vegna krabbameins sem hann greindist með í brisi síðasta haust. Í kjölfarið fór hann í skurðaðgerð þar sem æxlið var fjarlægt og síðan tók við geislameðferð. Stefán segir á Facebook-síðu sinni í dag að nú geti hann hafist handa við að byggja sig upp eftir áfallið sem fylgdi veikindunum.

„Tók í höndina á lækninum í morgun sem staðfesti þetta við mig. Þetta er búið að vera löng og ströng rúmlega sex mánaða meðferðar-hrina en nú tekur við að koma sér á fætur aftur. Geislarnir halda áfram að virka og hafa áhrif á mig í einhverja mánuði en ég get lofað ykkur því að ég verð kominn upp á fætur áður en langt um líður, ég nenni ekki að liggja mikið lengur með tærnar upp í loft,“ segir leikarinn þjóðþekkti ennfremur en hann hefur rætt opinskátt um veikindi sín síðan þau komu upp.

Þakkar hann fyrir allan þann stuðning sem hann hefur fengið en hann hefur sagt að stuðningur frá þjóðinni og aðdáendum hafi skipt sköpum í baráttunni. „Takk fyrir allan stuðninginn og klappið á bakið, það er ómetanlegt þegar maður gengur í gegnum svona nokkuð og þó svo að ég sé ekki alveg staðinn 100% upp þá minni ég á að ég er alveg kaffitækur og á röltinu þrátt fyrir að vera svolítið slappur.“

„Sjáumst svo hress á röltinu í sumarblíðunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert