Stjórnandi í unglingastarfi ákærður

mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Karlmaður, sem gegndi stöðu stjórnanda í kristilegu unglingastarfi, hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn stúlku. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins en meint brot voru framin árið 2015.

Fram kemur í ákæru saksóknara, sem gefin var út í lok síðasta mánaðar, að maðurinn hafi brotið gegn trúnaðarskyldu sinni við stúlkuna sem honum hafði verið trúað til uppeldis og kennslu gagnvart. Er honum gefið að sök að hafa í allt að tuttugu skipti haft samræði við stúlkuna, sem þá var 16 og 17 ára, með því að notfæra sér yfirburðastöðu sína sökum aldurs og reynslu auk þess að misnota freklega þá stöðu sem hann hafði gagnvart henni þegar hún leitaði til hans sem stjórnanda í kristilegu unglingastarfi en hún hafði trúað honum fyrir miklum erfiðleikum í einkalífi sínu.

Maðurinn er sagður hafa tekið stúlkuna undir verndarvæng sinn og aðstoðað hana á ýmsan hátt meðan á starfinu stóð og eftir að því lauk. Meðal annars er hann sagður hafa afhent henni lykil að heimili sínu til þess að hún gæti leitað þar skjóls og er hún sögð hafa dvalið mikið á heimili hans. Stúlkan gerir kröfu á manninn um 2,5 milljónir króna í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert