Keppti í fimleikum á ný 46 ára

Nilli á bogahestinum.
Nilli á bogahestinum. mbl.is/Golli

Jóhannes Níels Sigurðsson segir að fimleikar eigi að vera fyrir alla, líka fullorðna. Hann keppti í fimleikum á dögunum, orðinn 46 ára gamall en hann var þekktur fimleikamaður á yngri árum. Hann segist hafa óttast að hann gæti þetta ekki en komst að því að hindranirnar eru aðallega í kollinum.

Nilli, eins og Jóhannes Níels er jafnan kallaður, segir að það hafi verið „old boys“ hópur í Ármanni í gegnum tíðina en hann var að byrja að æfa með gömlum félögum úr fimleikunum, Gísla Erni Garðarssyni, Guðjóni Guðmundssyni og Axel Bragasyni. „Við vorum að byrja, ég kveikti svolítið í þessum gömlu strákum að byrja aftur. Við erum búnir að ákveða að hittast allavega einu sinni í viku til að byrja með og það munu fleiri bætast í hópinn. Svo nýtir maður aðra daga til að gera eitthvað sjálfur, þetta er bara hvetjandi. Það er fast í manni þegar maður er ekki ungur lengur að maður geti þetta ekki en þetta er allt í kollinum. Ef maður er ófeiminn og ætlar sér eitthvað, þá er allt hægt. Maður sér til dæmis fólk á hestbaki sem er komið yfir nírætt.“

Hann segir að það sé mikilvægt að vera ófeiminn að prófa. „Fólk byrjar í fimleikum yfir tvítugt og nær ágætum árangri. Það eru ekki allir á leiðinni á Ólympíuleika og heimsmeistaramót, sem er alveg gríðarleg vinna. Það er fórn frá öðrum frítíma og vinum en þú eignast vini líka í æfingasal. Fimleikarnir eru fyrir breiðari hóp en fólk ímyndar sér,“ segir hann.

Hann bendir á að fimleikasalirnir séu oft lausir á kvöldin og hægt væri að nýta þá betur í starf með fullorðnum.

Nauðsynlegt að getuskipta

Talið berst að keppnum og árangurskröfu í fimleikum og krökkum sem vilja stunda íþróttina einungis ánægjunnar vegna. Nilli segir að það að getuskipta líti ekki alltaf vel út en það verði að vera svoleiðis því það sé alltaf best að vera með jafningjum sínum.

„Ef allir eru að keppa nema þú, þá ertu einhvern veginn minnimáttar, það er ekki góð tilfinning fyrir börn,“ segir hann sem vill að allir njóti sín. „Stundum lítur það kannski ekki vel út ef einn fer upp í annan hóp en íþróttin er einstaklingsmiðað nám eins og í skólum og þess vegna má ekki letja þann sem er góður og ekki ýta of mikið á þann sem vill bara sitt. Þetta er heilmikil kúnst.“

Vill keppnir fyrir öldunga

Er bogahesturinn uppáhaldsáhaldið þitt? „Ég náði fljótt grunni þar sem fleytti mér í að fara í erfiðari æfingar á undan hinum Íslendingunum en ég fann mig fljótt á bogahestinum. Ég var yfirleitt skrefinu lengra en mínir félagar. Seinna meir hafði ég meira gaman af hringjum og svifrá en bogahesturinn var og er skemmtilegasta greinin.“

Bogahesturinn togaði í hann um daginn. Hvernig var að keppa aftur?
„Bikarmótið er haldið einu sinni á ári og þá er þetta liðakeppni í áhöldunum. Bjarkarstrákana vantaði eina æfingu á bogahesti,“ segir hann og bætir við að þetta hafi byrjað í gríni en hann hafi verið fljótur að taka áskoruninni. „Ég sagði já en á leiðinni heim hugsaði ég: Hvað var ég að gera? En ég gat ekki bakkað út úr þessu og setti allt í gang.“

Hann þurfti því að æfa töluvert meira en venjulega og segir álagið hafa verið mikið eins og á úlnliði, hendur og axlir. „Maður tók íbúfenið aðeins með. Þetta gekk bara vel en að vísu datt ég einu sinni í keppninni en ég náði að setja saman erfiða æfingu en ég ætlaði mér aðeins meira. Það er oft þannig.“

Hann myndi gjarnan vilja keppa meira en þá á öðrum forsendum. „Við strákarnir á mínum aldri höfum oft talað um að það væri gaman að keppa aftur. Við höfum haldið svona jólasveinamót einu sinni á ári en það er bara grín, við erum að leika okkur og ekkert endilega að keppa í fimleikum heldur fimleikatengdum greinum eins og að labba á höndum. En að keppa á móti var ekkert sjálfsagt en að taka þetta skref var nauðsynlegt fyrir bæði mig og aðra. Og ég held að þetta muni aukast. Það mættu vera með léttari kröfur, þetta er of erfitt. En um leið og við gætum verið með léttari dómarakröfur þá myndu fleiri fara að keppa,“ segir Nilli og bendir á að haldið sé heimsmeistaramót öldunga í fimleikum. „Þetta er gert í mörgum löndum en ekki hér hingað til. Af hverju ekki halda öldungamót? Og senda landslið öldunga út?“

Hrósar Gísla Erni fyrir hugdirfsku

Auk þess að vera fimleikaþjálfari er Nilli hestamaður, járningamaður, fjölskyldufaðir, listmálari og leikari en hann er hluti af leikhópnum Vesturporti. Þátttakan í Vesturporti hefur verið algjört ævintýri og hann hrósar Gísla Erni leikstjóra og fimleikafélaga fyrir hugdirfsku. „Það sem er skemmtilegt við Vesturportssýningar er að Gísli fær oft mjög ýktar hugmyndir og við bara prófum allt á meðan enginn fer sér að voða. Hann er ófeiminn við að reyna hluti og það er svo skemmtilegt,“ segir hann en þetta er ákveðið viðhorf sem ekki allir geta tileinkað sér.

„Það er líka bara að þora að misstíga sig, að mæta vegg. Það þýðir ekki endilega endalok heldur þarf að taka á því, það eru ótrúlegar leiðir að öllu. Þetta hefur kennt mér að halda ótrauður áfram og að þora. Maður fær hugmynd, langar að gera eitthvað, fara upp á þetta fjall, og þá er bara að vinna að því og gera það. Ég hef lært gríðarlega mikið í leikhúsinu. Ég er í mörgum ólíkum störfum en hugsunin er alltaf sú sama; maður uppsker eins og maður sáir. Maður þarf alltaf að svitna, þú þarft að hafa fyrir öllu, það er ekkert frítt.“

Nilli segir frá öllu þessu og mörgu fleira í ítarlegu viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Nilli er jafnframt listmálari.
Nilli er jafnframt listmálari. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert