Verstu gatnamótin öll á höfuðborgarsvæðinu

Miklabraut. Fjöldi slysa verður við gatnamót Miklubrautar.
Miklabraut. Fjöldi slysa verður við gatnamót Miklubrautar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Flest slys með meiðslum eiga sér stað á Hellisheiði, en næst flest slys verða á Reykjanesbrautin á milli Vatnsleysustrandarvegar og Grindarvíkurvegar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um Umferðaslys Íslandi árið 2016, sem Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) fjallar um á vef sínum.

Þegar skoðuð eru slys og óhöpp, með og án meiðsla, kemur í ljós að verstu kaflarnir eru sitthvorum megin við Hvalfjarðargöngin, en þar eru stuttir kaflar þar sem þó nokkur óhöpp eiga sér stað. 

Ef þessir kaflar eru undanskildir þá er Hringvegurinn vestan við Hellisheiði fram hjá Litlu Kaffistofunni verstur og þar á eftir kemur Hellisheiðin.

Gatnamót við Miklubrautina slæm

Verstu gatnamót landsins sl. fimm ár eru hins vegar öll á höfuðborgarsvæðinu og koma gatnamótin við Miklubrautina sérlega illa út.

Þegar horft er til slysa með meiðslum þá eru verstu gatnamótin  á mótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar,  þar á eftir koma gatnamót Miklubrautar og Grensásvegar, Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og Háaleitisbrautar og Bústaðavegar.

Ef skoðuð eru síðan slys og óhöpp, með og án meiðsla, eru það gatnamótin Miklubrautar og  Kringlumýrarbrautar sem koma verst út, en þar á eftir koma gatnamót Miklubrautar og Grensásvegar, Miklubrautar og Háaleitisbrautar og svo Hringbrautar og Njarðargötu.

Suðurnesjabúar verða fyrir flestum slysum

Íbúar Suðurnesja lenda í flestum slysum m.v. íbúafjölda, hvort sem litið er til ársins 2016 eða síðustu fimm ára. Þegar þéttbýlisstaðir eru síðan skoðaðir fyrir árið 2016 þá lentu Selfyssingar í flestum slysum, en íbúar Reykjanesbæjar fylgja fast á hæla þeirra.

Yfir síðustu fimm ár voru það hins vegar íbúar Akureyrar, Selfoss og Reykjanesbæjar sem lentu í flestum slysum miðað við höfðatölu.

Íbúar Egilsstaða lentu í færri slysum en íbúar annarra stórra kaupstaða á landinu í fyrra, en þegar síðustu fimm ár eru skoðuð í held eru það Mosfellingar sem verða fyrir fæstum slysum.

Slysum af völdum ölvunaraksturs fjölgaði hins vegar talsvert á milli ára, eftir að hafa fækkað nánast árlega frá 2008. Hafði slysum af völdum ölvunaraksturs  fækkað úr 73 árið 2008 niður í 22 árið 2015. Árið 2016 fjölgaði þeim síðan aftur upp í 48, sem er meira en tvöföldun á milli ára og ollu karlar tvisvar sinnum fleiri slysum og meiðslum vegna ölvunaraksturs en konur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert