Verndar minninguna með því að lifa

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir fyrir utan æskuheimli Sigursteins við Óðinsgötu þar sem …
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir fyrir utan æskuheimli Sigursteins við Óðinsgötu þar sem Sigurbjörg á margar góðar minningar hjá tengdaforeldrum sínum. mbl.is/Rax

„Ástæðan fyrir því að mig langar að segja þessa sögu er að núna ætla ég að ganga úr myrkrinu í ljósið. Það eru 20 ár síðan þetta gerðist, núna í desember, og ég hef verið að vinna úr þessu allar götur síðan. Ástæðan fyrir því að ég geng núna og ákveð að tala um þetta er að ég vil beina athyglinni að eftirlifendum og hversu hrikalega flókin, sársaukafull og átakamikil úrvinnslan er í þessu sorgarferli sem er svo ólíkt öðrum sorgarferlum,“ segir Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur sem missti eiginmann sinn, Sigurstein Gunnarsson, þegar hann svipti sig lífi árið 1997.

Sigurbjörg ætlar aðfaranótt 6. maí að ganga „Úr myrkri í ljósið“ en Pieta á Íslandi stendur fyrir 5 kílómetra göngu úr næturmyrkri inn í dagrenningu til að minnast þeirra sem hafa tekið líf sitt og fyrir þá sem hafa öðlast von. Sjálf öðlaðist hún von.

Kom öllum á óvart

Fráfall Sigursteins kom öllum sem þekktu hann mjög á óvart, enda hafði hann verið lífsglaður og fyllt líf sinna nánustu af gleði. Þau hjónin voru ákaflega náin og Sigurbjargar beið þarna sú stærsta áskorun sem hún hefur tekist á við; að sætta sig við að maðurinn sem hún elskaði kaus að fara á þennan hátt og fá í raun aldrei fullnægjandi skýringar á láti hans, í það minnsta ekki beint frá hans brjósti.

„Honum gekk vel í skóla og var afar skapandi, alltaf með fullt af krökkum í kringum sig og hafði mikið frumkvæði að alls konar leikjum og búningagerð. Á unglingsárum byrjaði hann að mála myndir og spila á gítar,  síðar vorum til dæmis saman í hljómsveit sem kallaðist Rokk og co. Það var sama hvar hann var, hvort sem var í Miðbæjarskólanum, Austurbæjarskóla eða MR, hann var alltaf í góðum félagsskap og uppáhald kennara sinna. Þá lagði hann sig fram um  að halda fjölskyldunni saman og var leiðandi í því að skapa gleði í fjölskyldunni, hafa þorrablót og fjölskylduhátíðir. Þess vegna er sagan svolítið óvænt og mörgum óútskýrð, þótt ég sjálf hafi fundið mínar skýringar,“ segir Sigurbjörg í viðtali sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins þar sem hún fer yfir sögu þeirra saman og atburði þessarar örlagaríku nætur í desember 1997.

Sængin óhreyfð

„Við höfðum deginum áður verið að njóta jólanna hér í miðborginni. Daginn eftir áttum við von á fullt af fólki í piparkökur og súkkulaði sem hann lagaði eftir uppskrift móður sinnar. Við fáum okkur kvöldverð, höfðum farið til Ástralíu um sumarið í ráðstefnuferð þar sem við kynntumst áströlskum vínum og vorum með fínan kvöldverð fyrir okkur tvö og vorum að prófa okkur áfram með ýmiss konar áströlsk vín. Síðan förum við bara að horfa á sjónvarpið og ég man að það voru tvær myndir. Fyrri myndin held ég að hafi örugglega verið Forest Gump. Þegar næsta mynd byrjar sofnar hann aðeins, vaknar svo og fer niður og útbýr fyrir okkur koníak í súkkulaði. Síðan sofna ég fyrir framan sjónvarpið, vakna þegar komið er langt inn í miðja mynd. Sigursteinn er að horfa á myndina og hundurinn okkar Grettir er þarna hjá okkur. Ég segi að ég ætli að fara inn í rúm og bið góða nótt. Allt ósköp venjulegt.“

Klukkan fimm um nóttina vaknar Sigurbjörg við að sæng Sigursteins er óhreyfð í rúminu og ljósin eru kveikt frammi.

„Ég hugsa með mér að núna hafi hann sofnað aftur fyrir framan sjónvarpið. En þegar ég kem fram er hann ekki þar. Stundum kom fyrir að sjúklingar hans lentu í einhverjum vandræðum og ef það var sérstaklega slæmt fór hann og sinnti þeim. Það er því það fyrsta sem mér dettur í hug, að hann hafi farið niður á tannlæknastofu. Það hafi kannski einhver bara hringt og ég ekkert vaknað við það. En þetta var samt mjög óvenjulegt, að vakna og hann ekki í húsinu, það hafði aldrei gerst áður. Af því að ef hann hafði þurft að fara, þá lét hann mig vita.

Andaði að sér klóróformi

Mér fannst þetta eitthvað skrýtið svo að ég ákvað að fara niður á tannlæknastofuna hans í Suðurgötu. Hann hafði ekki farið á bílnum svo að ég fór á bílnum niður eftir. Ég legg bílnum í bílageymslunni og þegar ég kem upp sé ég í gegnum hurðarrifurnar að það er ljós inni hjá honum og hugsa strax með mér: Jæja, hann hefur bara þurft að fara í útkall. Ég opna dyrnar, geng fyrir horn og sé fætur hans í sófanum á biðstofunni. Ég tel að hann hafi sofnað þarna.“

Sigurbjörg gengur fyrir hornið og sér þá hvers kyns var.

„Sigursteinn hafði notað aðferð sem allir læknar og tannlæknar þekkja. Það var aðferð sem krafðist þess að hann þurfti að halda út. Fólk segir stundum; þetta var gert í brjálsemi, stundarbrjálæði. Þetta var ekki gert í stundarbrjálæði. Hann hafði andað að sér klóróformi í svörtum plastpoka sem hann var með yfir höfðinu. Það tekur tíma að láta slíkt virka, hann hefði getað snúið ákvörðun sinni við.

Reyndi að hnoða og blása

Ég ríf plastpokann af honum og hrópa; „Steini, Steini“ og ég finn að hann er ennþá heitur. Ég byrja að blása og hnoða og blása og hnoða og kalla á hann, því mér fannst einhvern veginn eins og hann væri þarna ennþá. Mér fannst að hann hlyti að vera þarna. Ég hringi í 112 og segi þeim að maður hafi reynt að taka líf sitt – komiði strax. Ég held áfram að blása og hnoða og man svo allt í einu að ég þarf að hlaupa niður og opna fyrir neyðarteyminu, það var svo margt sem þurfti að gera  á fáeinum sekúndum. Þarna niðri fannst mér kominn múgur og margmenni við hurðina; það var neyðarteymið, lögreglan, rannsóknarlögreglan og svo prestur.

Á nokkrum mínútum fannst mér biðstofan orðin full af fólki og ég missti algjörlega alla stjórn á kringumstæðum. Ég bara horfi á þá setja hann í hjartastuðtæki og alls konar rör og pípur komnar í hann. Mér fannst þetta orðið svo óraunverulegt, ég var hætt að tengja við þetta. Ég sá bara fætur hans, hvernig þeir hentust til í þessum tilraunum við að lífga hann aftur við. Lögreglan reyndi að taka mig afsíðis og ég segi; Heyriði, er þetta ekki örugglega draumur? Er þetta ekki bara draumur? Ég var búin að segja þetta ég veit ekki hvað oft og þá sagði einn lögreglumaðurinn við mig; „Sigurbjörg, þetta er ekki draumur.“

Engin skilaboð - engar skýringar

Þetta var ekki draumur og bráðlega var ljóst að þetta var búið. Sigursteinn var dáinn og engin skilaboð, engar skýringar, ekkert sem Sigurbjörg gat fest hönd á.

„Þá hófst þessi hrikalega, hrikalega þrautaganga að fara og segja fjölskyldunni þetta. Ég fór fyrst til mömmu en henni þótti óskaplega vænt um þennan mann. Meðan ég var í náminu úti var hann heimagangur á heimili hennar og bróður míns, hann var nánast eins og sonur hennar og það var mér hræðilega erfitt að færa henni þessi tíðindi.“

Sigursteinn Gunnarsson lést 44 ára gamall.
Sigursteinn Gunnarsson lést 44 ára gamall.

Allir í rannsóknarleik

Ótímabær dauði ungra manna var því miður eitthvað sem Sigurbjörg og móðir hennar voru ekki að kynnast í fyrsta sinn. Sigurbjörg þekkti sorgina en þessi sorg var allt öðruvísi. Hún var að verða 5 ára þegar faðir hennar lést úr bráðahvítblæði, 41 árs frá 5 börnum.

„Móðir mín var þá 33 ára gömul og að sjá móður mína fara í gegnum þessa sorg og okkur öll var skuggi sem fylgdi bernsku minni alla tíð. Yngri bróðir minn dó líka ungur, 22ja ára, en hann var einn af þeim fyrstu sem dóu hér á landi úr alnæmi. Ég er búin að kynnast dauðanum oft, tengdaforeldrar mínir, afar og ömmu, nánir vinir farið úr krabbameini en það er ekkert eins flókið og það að vinna úr sorg sem er svona tilkomin. Ekkert af þessu sem ég hef upplifað er þessu líkt og nú skal ég segja þér hvers vegna það er svona gígantískt flókið.

Það er vegna þess, sem ég átti alls ekki von á. Mér brá svo að þegar ég fór að taka á móti fólkinu mínu, vinum og kunningjum, fannst mér allir allt í einu komnir í einhvern rannsóknarlögregluham.

„Hvað var þetta?!!“ „Var hann þunglyndur – var áfengi?“ „Voru peningavandræði?“ „Var annar maður í spilinu?!“

Allar þessar spurningar sem dundu á mér í vikunum á eftir einhvern veginn yfirskyggðu það sem ég þurfti mest á að halda, að fá að syrgja hann og fá hreina samúð. Við höfðum verið svo miklir vinir, alltaf staðið saman, töluðum alltaf vel hvort um annað og bökkuðum hvort annað alltaf upp.

Það var því svo nýtt að heyra fólk tala þannig við mig eins og ég hlyti að vita eitthvað sem ég þó ekki vissi og skildi í raun og veru ekki sjálf.

Og viðbrögð mín við þessu voru þau að ég ákvað að standa með honum og lokaði mig af. Standa með honum og verja hann. Ástæðan var sú að mér fannst einhvern veginn eins og allar þessar spurningar sem á mér dundu um hann, hvað þetta gæti verið og af hverju – mér fannst einhvern veginn eins og það væri verið að taka frá mér minningu um þetta 25 ára samband.

Þetta var gott hjónaband og við lifðum góðu lífi. Allt í einu fannst mér eins og það væri dregið í efa og það sem mér fannst líka mjög óþægilegt við þetta er það að ég hafði engan annan til vitnis um heimilislífið okkar, ég var ein eftir.“

Þrennt sem hélt í 

Eftirlifendum er samkvæmt allri tölfræði sérstaklega hætt við að fara sömu leið; að binda enda á líf sitt.

„Ég hef oft hugsað um það, af hverju ég hafi svo ekki bara gert þetta líka, því auðvitað kom það upp í huga minn, að ég ætlaði bara að ljúka þessu. Ég hélt hjá mér búnaði til að geta endað lífið eins og hann og hugleiddi það að það væri ekkert sem héldi í mig hérna. Ég hafði ekki einu sinni neinn með mér til að rifja upp heimilislíf okkar. Þetta líf sem ég átti með þessum manni var bara farið. Og ég get sagt þér að ég hef komist að niðurstöðu um það, eftir þessi 20 ár, af hverju ég gerði það ekki. Þar  er þrennt sem stendur upp úr.

Í fyrsta lagi þá hugsaði ég með mér: Ef hann var svona góður maður, ef við áttum svona gott líf saman – hvers konar vitnisburður um okkar líf er það ef ég vel það að fara svo á eftir honum? Ég heyrði fólk segja: Hvernig gat hann gert henni þetta og mér fannst svo erfitt að heyra það því hann hafði gefið mér svo mikið. Ég vildi ekki taka undir þessa ásökun með því að fara á eftir honum. Og ég hugsaði með mér: Nei, ég ætla að standa með honum. Ég ætlaði ekki að halda í annað en bara einhverjar góðar minningar og þakklæti fyrir allt sem hann gaf mér. En hann gaf mér alveg svakalega áskorun líka en ég hef aldrei ásakað hann. Ég get ekki hugsað mér að skilja þannig við hann, aldrei.“

Engin venjuleg sorg

„En þegar ég lá allar þessa löngu nætur og grét úr mér lungum og lifur í angistinni að vera búin að missa hann þá fór ég allt í einu að segja við sjálfa mig; ég vildi að það væru liðin fimm ár. Ég vildi að það væru liðin 10 ár, þá væri ég kannski komin eitthvað lengra með þetta, búin að vinna úr þessu. Um leið og ég fór að hugsa svona fann ég hvernig mín eðlislæga forvitni kviknaði. Ég fór að velta fyrir mér hvað myndi nú taka við í lífi mínu. Hvers konar lífi ég kæmi til með að lifa. Og eftir því sem ég hugsaði þetta meir því forvitnari varð ég. Ég vildi sjá hvernig þetta færi og það dreif mig áfram. Og ég hugsaði með mér að nú ætlaði ég að finna mér eitthvað sem væri ekki hægt að taka frá mér og það var að sækja mér meiri menntun. Pabbi farinn, bróðir minn, eiginmaður, margt fólk. Það er hægt að taka svo margt af manni en ekki menntunina. Og þá fæddist sú ákvörðun að fara í meira nám.

Þriðja atriðið er að ég gat ekki hugsað mér að mamma yrði að sjá á bak öðru barni. Ég vildi ekki leggja þessa kvöl á nokkurn mann.

Ég fann að þetta var engin venjuleg sorg og það var erfitt fyrir mig að stytta mér einhverja leið í henni. En ég gat ekki bara setið ein yfir þessu og verið að hugsa um þetta allt aftur og aftur.“

Sú ákvörðun að fara út í nám varð upphaflega til niðri á Þjóðhagsstofnun. Sigurbjörg var þá yfirmaður öldrunarmála í Reykjavíkurborg og var að undirbúa skýrslu fyrir forsætisráðuneytið og þingið um öldrunarmál.

„Ég var að vinna að þessu með Sigurði Snævarr hagfræðingi og hann sagði við mig þar sem ég var komin stuttu eftir lát Sigursteins í vinnuna: „Sigurbjörg, hvað ert þú að gera hérna? Nú eru tímamót hjá þér, þú átt að fara og læra eitthvað meira. Ég skal útvega þér viðtal hjá London School of Economics. Hugsaðu bara um þig núna.“ Í raun og veru hafði Sigursteinn sagt þetta líka. Þannig að þá verður sú ákvörðun til og ég enda á að taka fyrst meistaranám í LSE og hellti mér síðan í doktorsnám þar.“

Styrkti sig líkam- og vitsmunalega

Þegar Sigurbjörg fór af landinu fór hún með búnaðinn sem hún hafði komið sér upp til að nota ef hún skyldi gefast upp til heimilislæknisins síns.

„Það var þarna sem ég valdi lífið. Og ég sagði henni það, að ég ætlaði að lifa. Ég ætlaði bara að vona að lífið væri svolítið meira í mínum höndum núna. Ég fór út haustið 1998. Ég hafði þá hafið mjög stranga líkamsþjálfun sem gaf mér endorfín sem ég held að hafi hjálpað mér. Og ég fór að hjóla. Hjólaði eins og vitlaus manneskja upp og niður með Thamesá,  niður til Brighton og upp í Cambridge, ég hjólaði og hjólaði. Ég var svo ákveðin að ég hætti að vera hrædd við umferðina. Ég sagði bara: Ég ER umferðin. Ég kom mér fyrir á miðlínunniog hjólaði á miðri götu. Ég var orðin svakalega vel á mig komin líkamlega en var líka að láta reyna á mig vitsmunalega í mjög erfiðu námi.

Hjónin Sigursteinn og Sigurbjörg saman á góðri stundu. Hundurinn Grettir …
Hjónin Sigursteinn og Sigurbjörg saman á góðri stundu. Hundurinn Grettir fékk að fara með húsbónda sínum í kistuna.

Einhverjir myndu kalla þetta flótta. En hvað á maður að gera við þessar aðstæður? Ég gat ekki flúið neitt. En hitt er annað mál að ég fann alltaf að ég gat ekki komist neitt áfram með sorgina nema bara skref fyrir skref í einu. Og mín leið út úr þessu var að örva mig vitsmunalega, örva getu mín til að vinna með hugmyndir, leysa úr flóknum spurningum með fræðilegum verkefnum. Og styrkja mig líkamlega. Ég fór í mjög langar hjólaferðir niður í gegnum Evrópu sem kröfðust rosalegs úthalds, hljóp mitt fyrsta maraþon árið 2003 og ég er búin að vera að hlaupa allar götur síðan.“

Þetta gerði Sigurbjörgu sterka aftur.

„Þetta sýndi mér að það eru einhverjir hlutir í lífi manns sem er hægt að hafa stjórn á. Meðan það eru mjög margir aðrir sem ég hef ekki á mínu valdi. En maður hefur alltaf eitthvert val hvernig maður bregst við og hvað maður gerir við líf sitt. Ég bjó þó við þau forréttindi að við áttum þetta hús, ég átti tannlæknastofuna hans og gat fjármagnað næstu 10 ár í lífi mínu. Móðir mín hafði ekki þetta sama val. Ég gat valið mína áskorun, þær eru allt of margar áskoranirnar sem maður fær engu ráðið um og maður hefur áttað sig á því eftir, hvað get ég sagt, ýmsar ógnir við heilsu mína. Ýmis erfið veikindi sem ég hef lent í síðustu árin, þar sem ég fékk meðal annars heilahimnubólgu og í Bretlandi lenti ég í alvarlegu hjólreiðaslysi þar sem ég höfuðkúpubrotnaði. Ég er því mjög einbeitt í að halda heilsu, vera í góðu formi og halda einhverju innihaldsríku í kollinum á mér til að vinna með og fylla líf mitt af því.“

Viðtalið við Sigurbjörgu birtist í heild sinni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kemur út helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert