Spá allt að 20 stiga hita

Þetta er eins og listaverk en er í raun mynd …
Þetta er eins og listaverk en er í raun mynd af norðurhveli, Ísland fyrir miðju. Kortið sýnir spá á hádegi 4. maí. Gulur og appelsínugulur litur yfir Íslandi þýðir að loftið yfir landinu er hlýtt, en svalara er yfir Skandinavíu og Bretlandseyjum svo dæmi sé tekið. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Loksins sér fyrir endann á þessari kuldatíð. Gert er ráð fyrir hlýindum í vikunni, allt að 20 stigum. Samfara þessu hlýja lofti má búast við leysingum vítt og breitt um landið. 

Þetta kemur fram í facebookfærslu Veðurstofu Íslands. 

Þar fylgja eftirfarandi skýringar myndinni sem fylgir þessari frétt:

„Meðfylgjandi mynd sýnir kort af norðurhveli, Ísland er rétt fyrir neðan miðja mynd. Litirnir tákna þykkt milli 1000 hPa og 500 hPa þrýstiflata sem er mælikvarði á hita loftmassans í neðri hluta veðrahvolfs. Kortið sýnir stöðuna kl. 12 á fimmtudag 4. maí. Gulur og appelsínugulur litur yfir Íslandi þýðir að loftið yfir landinu er hlýtt, en svalara er yfir Skandinavíu og Bretlandseyjum svo dæmi sé tekið.“

Veðurvefur mbl.is.

Veðurhorfur næsta sólarhringinn eru þessar:

Vaxandi suðaustanátt í kvöld og nótt, 13-18 m/s á morgun og rigning. Heldur hægari vindur og þurrt að mestu á Norður- og Austurlandi. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast norðanlands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga eru þessar:

Á þriðjudag:
Suðaustan 13-20 m/s með rigningu og súld, en heldur hægari og bjart um landið norðaustanvert. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á miðvikudag:
Suðaustan 5-13 m/s á Suður- og Vesturlandi, skýjað með köflum og þurrt að kalla. Hiti 10 til 16 stig. Hægari suðlæg átt á Norður- og Austurlandi, yfirleitt léttskýjað og hiti 14 til 20 stig.

Á fimmtudag, föstudag og laugardag:
Hæg breytileg átt, víða léttskýjað og hiti 13 til 20 stig. Sums staðar þokuloft við sjávarsíðuna og mun svalara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert