Verkfall eini kosturinn í stöðunni

Boeing 737-800 farþegaþota flugfélagsins Primera Air.
Boeing 737-800 farþegaþota flugfélagsins Primera Air.

Flugfreyjufélag Íslands hefur boðað til atkvæðisgreiðslu um vinnustöðvun hjá flugfélaginu Primera Air Nordic í því skyni að ná fram kjarasamningum við félagið. Þetta kemur fram í tölvupósti sem formaður FFÍ sendi á félagsmenn. 

Í tölvupóstinum segir að flugfreyjurnar- og þjónarnir sem starfa hjá Primera séu mestmegnis frá Lettlandi. Þeir séu ráðnir í gegnum starfsmannaleigu á Gurnsey og laun þeirra séu töluvert undir lágmarkskjörum sem kveðið er á um í kjarasamningum við aðra flugrekendur á Íslandi. Enn fremur segir í tölvupóstinum:

„Flugfreyjufélag Íslands og ASÍ hafa unnið að því á síðastliðnum tveimur árum að komið verði á kjarasamningi við Primera vegna þeirra starfa sem unnin eru á íslenskum vinnumarkaði og innan íslensks efnahagslífs en án árangurs. Einnig hefur verið óskað eftir því að viðeigandi ráðuneyti komi að þessu mikilvæga máli og hefur verið farið fram á viðurkenningu frá þeim um að starfsemi Primera sé ekki lögleg samkvæmt íslenskum og evrópskum flugreglum. Enginn árangur hefur náðst á þeim vettvangi og stjórnvöld hafa farið undan í flæmingi. Hefur því niðurstaða FFÍ með aðstoð ASÍ verið sú að boða til allsherjar atkvæðisgreiðslu um boðun vinnustöðvunar hjá Primera Air Nordic.“ 

Telur FFÍ að óbreytt fyrirkomulag geti leitt til þess að aðrir flugrekendur freisti þess að skrá flugrekstur sinn erlendis og hefjist þá kapphlaup í undirboðum á vinnumarkaði. Ekki hefur tekist að koma á kjarasamningi fyrir milligöngu ríkissáttasemjara og sér FFÍ því enga aðra kosti í stöðunni en að boða verkfall á hendur Primera.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert