Þingmenn taka þátt í Pieta-göngu

Þátttakendur í Pieta-göngunni í fyrra rituðu nöfn ástvina sinna á …
Þátttakendur í Pieta-göngunni í fyrra rituðu nöfn ástvina sinna á vonarborða. Ljósmynd/ Saga Sig

Þingmenn úr öllum flokkum munu taka þátt í göngu samtakanna Pieta Ísland aðfaranótt laugardags sem nefnist Úr myrkrinu í ljósið. Gengið verður í Reykjavík og á Akureyri til að minnast þeirra sem hafa framið sjálfsvíg, til að gefa von og til að hvetja til opinnar umræðu um sjálfsvígshættuna.

Að sögn Sigríðar Arnardóttur, framkvæmdastjóra Pieta Ísland, hefur skráning farið vel af stað en um 350 manns tóku þátt í göngunni í fyrra þegar hún var haldin í fyrsta sinn. „Við þurfum að gera mun betur núna. Þetta fer vel af stað og það er hugur í fólki,“ segir Sigríður.

„Það er þverpólitískur samhugur hjá þingmönnum. Við vitum um þingmenn úr öllum flokkum sem ætla að koma. Það er að aukast skilningur á því að þetta er eitthvað sem kemur öllum stórfjölskyldum og fyrirtækjum við. Þetta er falið vandamál og það eru svo margir sem vilja taka þátt í að breyta þessu,“ segir hún.

Þingmenn taka þátt í göngunni um helgina.
Þingmenn taka þátt í göngunni um helgina. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Gengið verður úr myrkri og inn í dagsbirtuna til að safna fé fyrir Pieta-húsi sem samtökin stefna á að opna á Íslandi í lok ársins 2017. Sigríður segir húsið vera dýrt í rekstri en nefnir einnig að enginn sé á móti stofnun þess. „Við erum að ræða við stór fyrirtæki, ráðuneyti, ráðherra, Kiwanis, Lions og fleiri,“ segir hún um söfnunina og bætir við að Pieta-samtökin séu með hús innan seilingar.

Pieta-hús á höfuðborgarsvæðinu mun geta náð til 81% landsmanna en stefnt er að opnun Pieta-athvarfs á Norðurlandi í framtíðinni.

Starfsemi hússins verður að írskri fyrirmynd en Pieta House hefur gefist vel á Írlandi og verið er að opna nokkur Pieta hús í Bandaríkjunum. Þar gefst fólki í sjálfsvígshættu, og aðstandendum þess, kostur á að koma í ókeypis viðtöl hjá sérfræðingum í fallegu húsi í íbúðahverfi. Tilgangur samtakanna er að útvega aðstoð fagfólks, gefa von og efla rannsóknir og fræðslu um sjálfsvíg og sjálfsskaða.

40 til 50 sjálfsvíg á ári hverju 

Talið er að 40 til 50 manns fremji sjálfsvíg hérlendis á ári hverju. Talið er að um 5.000 manns á ári hugleiði sjálfsvíg á Íslandi. Allt að 600 manns reyna sjálfsvíg, samkvæmt opinberum tölum.

Pieta Ísland mun í framtíðinni bjóða upp á ókeypis aðgengilega þjónustu. Einstaklingar sem munu þurfa aðstoð eiga kost á að fá þjónustu innan 24 stunda frá því að haft var samband.

Einnig verður boðið upp á þjónustu fyrir aðstandendur sem misst hafa ástvini í sjálfsvígi.

Allir eru velkomnir í gönguna. Skráning er á Pieta.is og upplýsingar fást á Facebook. Þátttökugjald er 2.800 krónur og fylgja stuttermabolir með í kaupbæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert