Snæbjörn dæmdur í 16 mánaða fangelsi

Snæbjörn Steingrímsson.
Snæbjörn Steingrímsson. mbl.is/Eggert

Snæbjörn Steingrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri SMÁÍS, var í dag dæmdur í 16 mánaða fangelsi, þar af 13 mánuði skilorðsbundna, fyrir að hafa dregið sér fé af reikningum samtakanna, látið leggjast undir höfuð að færa lögbundið bókhald þess og ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum.

Þá var Snæbjörn dæmdur til að greiða 17,3 milljónir til ríkissjóðs, ella sæta 240 daga fangelsi.

Í ákæru málsins var Snæbjörn sakaður um að hafa á ár­un­um 2008 til 2014 dregið sér tæp­lega 640 þúsund af de­bet­reikn­ingi fé­lags­ins, greitt með kred­it­korti fé­lags­ins til eig­in nota fyr­ir 6,8 millj­ón­ir og látið und­ir höfuð leggj­ast að færa lög­boðið bók­hald fé­lag­ins árin 2008 til 2014. Sam­tals nema því fjár­dráttar­brot­in og umboðssvik­in sam­tals um 7,4 millj­ón­um á tíma­bil­inu.

Snæbjörn játaði hluta brotanna fyrir dómi, en um var að ræða vanskil á virðisaukaskattskýrslum.

Hann neitaði hins vegar sök um að hafa á árunum 2008 til 2014 dregið sér tæplega 640 þúsund af de­bet­reikn­ingi fé­lags­ins og 6,8 milljónir af kreditkorti þess.

Á meðal þeirra út­gjaldaliða sem nefnd­ir eru í ákær­unni er fjöldi reikn­inga á veit­inga­hús­um, krám, vín­búðum og raf­tækja­búðum. Stærstu stöku færsl­urn­ar eru í gegn­um Paypal og vegna greiðslna hjá bíla­sölu.

Þá eru einnig nokkr­ar út­tekt­ir úr hraðbönk­um. Færsl­urn­ar eiga sér bæði stað hér á landi sem og er­lend­is. Ákært er fyr­ir 17 færsl­ur á de­bet­reikn­ingi fé­lags­ins og 275 færsl­ur á kred­it­korti þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert