Rannsókn á nauðlendingu lokið

Bilun í hreyfli reyndist minni háttar og var vélinni skilað …
Bilun í hreyfli reyndist minni háttar og var vélinni skilað til Flugskóla Akureyrar í gær. Ljósmynd/Hans Rúnar Snorrason

Rannsókn rannsóknarnefndar samgönguslysa á nauðlendingu lítillar kennsluflugvélar á vegum Flugskóla Akureyrar, á Eyjafjarðarbraut í gær, er lokið. Um var að ræða minni háttar bilun í hreyfli vélarinnar. Að sögn Ragnars Guðmundssonar, rannsakanda á flugsviði nefndarinnar, sem fór á staðinn, var málið þess eðlis að ekki þurfti svokallaða fulla rannsókn. Tveir voru um borð í vélinni, flugkennari og nemandi hans, og sluppu þeir báðir ómeiddir. Vélin skemmdist hins vegar lítillega.

„Það var ekkert átt við vélina fyrr en ég kom á staðinn þannig að það var ekki vitað hvers eðlis var. Ég og flugvirki, sem sinnir vélinni fyrir norðan, skoðuðum og það var strax ljóst hvað var að. Það reyndist minni háttar og þess eðlis að ég afhenti vélina aftur til Flugskóla Akureyrar að vettvangsrannsókn lokinni.“

Sjónvarvottur sem mbl.is ræddi við í gær sagðist þekkja til vélarinnar, hún væri gömul og taldi hann að hún ætti lítið eftir. Ragnar staðfestir að vélin sé gömul, frá árinu 1978, en hann getur ekki sagt til um hvað hún á mikið eftir. Enda fer slíkt alfarið eftir viðhaldi flugvéla og fjölda flugtíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert