Fyrirköll tilbúin í Guðmundar- og Geirfinnsmálum

Sexmenningarnir sem voru sakfelldir. Efri röð f.v.: Sævar Ciesi­elski, Erla …
Sexmenningarnir sem voru sakfelldir. Efri röð f.v.: Sævar Ciesi­elski, Erla Bolladóttir og Kristján Viðar Viðarsson. Neðri röð f.v.: Tryggvi Leifsson, Albert Kla­hn Skaftason og Guðjón Skarphéðinsson. mbl

Unnið er að því þessa dagana að fá lögmenn endurupptökubeiðenda í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum til að undirrita fyrirtökuna. Þetta segir Davíð Þór Björgvinsson, sett­ur rík­is­sak­sókn­ari í Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­un­um, sem vonast til að málið verði lagt fyrir Hæstarétt öðru hvoru megin við helgina.

Er það gert í framhaldi af því að end­urupp­töku­nefnd féllst í fe­brú­ar á end­urupp­töku­beiðnir er varða fimm menn sem sak­felld­ir voru í tengsl­um við manns­hvarfs­mál­in tvö á átt­unda ára­tugn­um. Nefnd­in féllst ekki á end­urupp­töku sjötta sak­born­ings­ins, Erlu Bolla­dótt­ur, sem var sak­felld á sín­um tíma fyr­ir að bera rang­ar sak­ir á menn við rann­sókn mál­anna.

„Það er verið að vinna í því þessa dagana að ná í lögmenn endurupptökubeiðenda og fá þá til að undirrita fyrirtökuna,“ sagði Davíð Þór sem var staddur erlendis þegar mbl.is náði í hann. „Þessi fyrirköll eru öll tilbúin, það þarf bara að ná í lögmennina til að undirrita þetta.“ Engin fyrirstaða er af hálfu lögmannanna við undirritunina, heldur þarf einfaldlega að hitta á lögmennina. „Þeir vilja ólmir undirrita svo málið fari fyrir Hæstarétt sem allra fyrst,“ segir hann.

Davíð Þór vonast til að í kjölfar þess að undirskriftirnar liggi fyrir, að þá verði málið lagt fyrir Hæstarétt öðru hvoru megin við helgina. „Þá fer ákveðið ferli í gang, en meðal annars þarf að taka ákvörðun um hvaða skjöl verða lögð fram og svo þurfa aðilar að skila inn greinagerðum.“

Davíð Þór segir ekki liggja annað fyrir á þessari stundu en að hann muni fylgja málinu til enda. Fara þurfi í gegnum mikið magn af gögnum þegar málið hefur verið lagt fyrir Hæstarétt til að ákvarða hvaða gögn verði lögð þar fram. „Það er gríðarlega mikil vinna eftir,“ segir hann.

Ekki liggi því fyrir hvenær málið verði tekið fyrir, enda sé það Hæstaréttar að setja málið á dagskrá og ákveði rétturinn dagsetningar, eftir atvikum í samráði við þá sem að því koma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert