Ég var dálítið vond við hana

Systurnar Guðrún Sesselja og Jóhanna Vigdís, eða Budda og Hansa …
Systurnar Guðrún Sesselja og Jóhanna Vigdís, eða Budda og Hansa eins og þær eru kallaðar, eru samrýmdar og góðar vinkonur. Ásdís Ásgeirsdóttir

Hönsu þekkja flestir af fjölunum en hún hefur leikið fjöldann allan af hlutverkum og sungið eftirminnilega á ýmsum vettvangi. Hún er enn að leika og syngja í Mamma Mia og leikur þar aðalhlutverk. Budda hefur átt sitt svið í dómsölum þar sem hún hefur rekið mörg sakamálin. En einnig hún á lítinn leiklistarferil að baki. Hún lék í Eiðinum eftir Baltasar Kormák og þótti standa sig prýðilega í hlutverki rannsóknarlögreglukonu.

Blaðamanni leikur forvitni á að vita meira um þær, hvernig systur eru þær? Hvað eru þær að bardúsa? Eru þær góðar vinkonur?

Við mælum okkur mót í hádeginu á drungalegum mánudegi og setjumst inn á veitingastað í miðbænum. Tónlistin er aðeins of hátt stillt fyrir viðtal og við byrjum á að biðja þjóninn vinsamlegast að lækka.

Hansa: Við erum að breytast í pabba okkar.  Budda: Pabbi var svona, hann kom inn og sagði bara, viljiði gjöra svo vel að slökkva á þessum helvítis hávaða. Þær systur hlæja.

Budda vinnur nú hjá Ríkislögmanni en þar hefur hún starfað í rúm tvö ár. Hún vinnur við einkamál sem höfðuð eru á hendur ríkinu og ver ríkið.

Hansa er velþekkt leik- og söngkona og Budda, sem er …
Hansa er velþekkt leik- og söngkona og Budda, sem er lögfræðingur, getur líka leikið og sungið. Hún lék í kvikmynd Baltasars, Eiðinum. Ásdís Ásgeirsdóttir

Hvernig er nýja starfið?

Budda: Þetta er mjög fínt, mér fannst ágætt að breyta til. Ég var svo mikið í sakamálunum og var komin með dálítið nóg af því.
Hansa er einnig komin í nýtt starf og vinnur hjá Samtökum iðnaðarins. Hún hyggst leggja leikhúsferilinn til hliðar um stund, a.m.k. sem fastráðinn leikari.

Hvernig er vinnunni háttað hjá þér núna?

Hansa: Ég er núna í 50% starfi af því ég er enn að leika í Mamma Mia og er að komast smám saman inn í þetta en ég vinn á menntasviði. Ég fór í MBA-nám í HR og útskrifaðist árið 2016. Það var alveg „eye-opening“, mjög skemmtilegt nám.

Af hverju fórstu að breyta um starf á miðjum aldri?

Hansa: Ég hef alltaf haft áhuga á rosalega mörgu, leiklistin hefur aldrei verið það eina sem ég hef haft áhuga á. Þegar maður er búinn að vera á föstum samningi í Borgarleikhúsinu eins og ég er búin að vera, í 17 ár, þá langar mann svolítið að fara að ráða sér sjálfur. Ég er búin að lenda í nokkrum gangsýningum, sem er ofsalega gaman að sýna, en að sama skapi svakaleg binding. Fjölskyldan situr á hakanum. Mig langar að vera meiri gerandi í mínu lífi.

En þú ert ekkert hætt í leiklistinni eða söngnum?

Nei, nei, ég skoða allt. Það er bara aðallega það að vera ekki fastur, nú er ég meira sjálf að velja og hafna.

Foreldrar systranna eru Guðrún Erlendsdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi hæstarréttardómari, og Örn Clausen lögmaður en hann er látinn. Þær systur ólust upp á ástríku menntaheimili ásamt eldri bróður, Ólafi.

Hvernig uppeldi fenguð þið?

Hansa: Við vorum hvattar áfram í því sem við gerðum og þá sérstaklega að við ættum að sækja okkur menntun á sviði sem við hefðum áhuga á.
Budda: Ég var ekkert sérstaklega hvött til að fara í lögfræði. Alls ekki. En það var lögð rosalega mikil áhersla á að við myndum mennta okkur. Svo var auðvitað mikið talað um lögfræði við matarborðið. Samt ekkert alltaf. Pabbi var mikið í sakamálum líka og ég man alveg eftir því að stelast í að skoða málin og lesa. Ef það var eitthvert krassandi sakamál var ég oft komin á kaf í að lesa það, þegar ég átti að vera að lesa undir próf eða eitthvað annað.

En Hansa fór inn á allt aðra brautir. Kom það fljótt í ljós?

Budda: Ég held að það hafi verið ljóst alveg frá upphafi með Hönsu að hún myndi alla vega fara í eitthvað tengt tónlist. Hún lærði á píanó og tók burtfararpróf í því og svo fór hún í sönginn en hún hefur alltaf sungið rosalega mikið þannig að það var ekkert sem kom manni á óvart. En kannski framan af hélt maður að hún færi meira í sönginn, að hún yrði óperusöngkona, en svo var þessi leiklistaráhugi líka.

Fjölskyldan samankomin á stúdentsdegi Ólafs. Frá vinstri: Guðrún Erlendsdóttir, Guðrún …
Fjölskyldan samankomin á stúdentsdegi Ólafs. Frá vinstri: Guðrún Erlendsdóttir, Guðrún Sesselja, Ólafur, Jóhanna Vigdís og Örn Clausen.

En getur þú ekkert sungið?

Hansa: Jú, hvort hún getur.
Budda: En yfirleitt bara í partíum, eftir tvö, þrjú hvítvínsglös. Ég hef verið veislustjóri og sungið í veislum. Ég hefði örugglega orðið fyllibytta ef ég hefði orðið söngkona. (Þær skellihlæja) Reyndar hef ég líka sungið í kór, ég er í Vox Feminae hjá Möggu Pálma og hef verið þar í fjögur ár og mér finnst það alveg rosalega gaman.

Þegar þið voruð litlar varstu aldrei afbrýðisöm út í Hönsu vegna tónlistarhæfileika hennar?

Budda: Nei, nei. Við Hansa sungum allan ABBA-katalóginn frá A-Ö. Hansa var auðvitað Agnetha og ég Anni-Frid.
Hansa: Hún var líka með dekkra hár, það skipti máli!
Budda: Og það vildi til að raddirnar fylgdu þessu nokkurn veginn. En Hansa hefur auðvitað alltaf verið náttúrutalent. Ég byrjaði ekkert að syngja, nema bara þetta ABBA, fyrr en löngu seinna, í Menntó, og þá helst djass. Ég get ekkert sungið hvað sem er.

Voruð þið samrýndar systur, góðar vinkonur?

Budda: Já. Mínar vinkonur eru hennar vinkonur og öfugt.
Rifust þið ekkert?
Hansa: Jú, jú, og slógumst stundum.
Budda: Ég var dálítið vond við hana stundum. Ég hafði ofsalegt tak á henni og vald yfir henni. Hún var svo mikið mömmubarn sem ég var ekki. Ég gat verið leiðinleg. En svo kom að því að hún varð stærri og sterkari en ég réð samt yfir henni talsvert fram yfir það þangað til að hún áttaði sig á því. En um leið og ég áttaði mig á því að hún var farin að taka á móti, þá hættum við bara að slást. Þá var það búið.

En núna á fullorðinsárum, eruði enn góðar vinkonur? 

Hansa: Já, já, við tölum saman á hverjum einasta degi, stundum oft á dag. Ég tek engar stórar ákvarðanir í lífinu án þess að tala við hana.
Budda: Já, sama hjá mér, nema varðandi fatakaup.

Systkinin þrjú á hátíðarstundu, Budda, Ólafur og Hansa.
Systkinin þrjú á hátíðarstundu, Budda, Ólafur og Hansa.

Þú fórst að leika í bíómyndinni Eiðinum, Budda, var það ekki skemmtilegt?

Budda: Það var alveg rosalega skemmtilegt.
Hansa: Ég verð að segja að mér fannst hún alveg frábær!
Budda: Þetta kom til af því að ég þekki Baltasar, við vorum saman í MR. Hann var að leita að ákveðinni týpu í hlutverk rannsóknarlögreglukonu. Hann sagði, þetta þarf að vera svona týpa eins og Budda! Þannig að Selma (Björnsdóttir) fékk mig í prufu.
Varstu þá bara að leika sjálfa þig?
Budda: Já, þetta var ekkert langt frá mér. Ég er náttúrlega ekkert leikaramenntuð.
Hansa: Hún þekkir þetta, að vera við yfirheyrslur og svona.
Myndir þú leika í fleiri hlutverkum ef þau bjóðast?
Budda: Já, ég myndi gera það, alveg hiklaust.
Hansa: Mér finnst að hlutverkin ættu að hrúgast inn!
Budda: Já, ég skil ekki að það sé ekki að gerast. En það er aldrei að vita. En ég gæti væntanlega ekki unnið við það sem aðalstarf, það eru ekki búnar til nógu margar bíómyndir á Íslandi.

Hvor er stjórnasamari eða frekari?

Hansa: Við erum svipaðar held ég.

Sunnudagsblað Morgunblaðsins um helgina.
Sunnudagsblað Morgunblaðsins um helgina.

Eru þið kannski ekkert stjórnsamar?

Budda: Jú, jú, ég er „control freak.“ Ég er alltaf að reyna að venja mig af því. Til dæmis þegar ég lék í myndinni með Balta. (Hér skellir Hansa upp úr.) Þar á hver maður sinn póst en ég var alveg farin að benda á ýmislegt, var hún ekki með annað hálsmen, á þetta ekki að vera þarna? Balti sagði við mig, þú yrðir ábyggilega frábær skrifta en við erum reyndar með skriftu. Ég þurfti aðeins að stíga til baka, enda átti ég fullt í fangi með að einbeita mér að mínu. Ég þurfti ekki að vera með allt hitt á hreinu. Maður heldur að maður þurfi alltaf að sjá um allt.

Viðtalið í heild má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert