Hættir sem þingflokksformaður

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata.
Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er bara mat mitt eftir að hafa rætt við þingflokkinn um það hvernig störfum þingflokkformanns og innra skipulagi þingflokksins eigi að vera háttað. Þar sem við erum ekki sammála um það er eðlilegast að ég stígi til hliðar,“ segir Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, en hún hefur hætt sem þingflokksformaður flokksins vegna ágreinings við meirihluta þingflokksins. Hún greindi frá þessu á Facebook-síðu sinni í dag.

Ásta Guðrún segir aðspurð að málið snúist ekki um neitt eitt ákveðið mál heldur sé um heildstætt mat hennar að ræða. Þá sé ekki um málefnaágreining að ræða heldur ágreining um skipulag. „Þannig að þetta er kannski ekki alveg eins spennandi og mætti halda,“ segir hún. „Þetta snýst einfaldlega um það hvert eðli og ábyrgð þingflokksformanns eigi að vera og við erum bara ekki sammála um það þannig að það er rétt að einhver annar taki við keflinu.“

Ásta Guðrún segist aðspurð hafa greint frá ákvörðun sinni á Facebook einfaldlega í anda gengsæis sem Píratar leggi almennt mikla áherslu á. „Þetta snýst bara um það að upplýsa fólk um stöðuna. Það er ekkert meira á bak við það.“ Hún sagði á Facebook að hún hlakkaði til þess að verða óbreyttur þingmaður á ný og hafa meiri tíma til þess að vinna að þeim málum sem væru henni hugleikin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert