Hafa ekkert heyrt um árásir

Vodafone Síminn
Vodafone Síminn Samsett mynd

Hvorki Vodafone né Síminn hafa enn sem komið er allavega ekki fengið tilkynningar um að viðskiptavinur þeirra hafi orðið fyrir barðinu á tölvuárásinni sem hófst á föstudaginn. Þetta segja upplýsingafulltrúar fyrirtækjanna í samtali við mbl.is.

„Það hefur ekkert óeðlilegt komið upp hjá okkur en það verður áfram tvöföld vakt og unnið að því að tryggja okkar varnir,“ segir Guðfinnur Sigurvinsson, upplýsingafulltrúi Vodafone, í samtali við mbl.is spurður hvort einhverjar tilkynningar hefðu borist fyrirtækinu.

„Það er full ástæða til þess að minna fólk áfram á að fara varlega og varast viðhengi í tölvupóstum og ennfremur að það getur verið hættulegt að opna vefsíður sem fólk þekkir ekki. Þessu hefur meðal annars verið dreift með auglýsingum,“ segir Guðfinnur ennfremur. Hann segir aðspurður að helgin hafi verið notuð til þess að tryggja varnir fyrirtækisins. 

„Við höfum verið að yfirfara kerfin og reyna allt sem í okkar valdi stendur til þess að koma í veg fyrir að nokkuð geti komið upp. Það er sem sagt enn tvöföld vakt hjá okkur og verður áfram á meðan þetta er í gangi,“ segir Guðfinnur.

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafultlrúi Símans, tekur í sama streng. Engar tilkynningar hafi borist fyrirtækinu um árásir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert