„Ég er búin að fá nóg“

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég þrái þetta nýja Ísland sem við vorum byrjuð að byggja saman, þar sem mátti sjá fyrstu sprota framtíðar og samfélags sem var ekki atað slori, græðgi og sérhlífni, þar sem almenningur arkaði niður á Austurvöll og gaf sig ekki fyrr en réttlætinu var náð,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins.

Frétt mbl.is: „Hvar er allt fólkið sem mætti og kaus?“

„Þetta fólk var ekki að bíða eftir leiðtogum til að toga sig á staðinn. Þetta fólk var rétt eins og ég búið að fá nóg og hafði engu að tapa. Það vildi spillta ráðamenn burt. Það var reitt og sárt. Margir vildu nýjan jarðveg því að það er ekki hægt að uppræta spillingarrótina með því að klippa arfann burt. Þessi rót er nefnilega snarrót sem ekki er hægt að ná í burt nema með nýjum jarðvegi,“ sagði hún ennfremur og bætti við:

„Við fengum aldrei þennan nýja jarðveg þrátt fyrir að hafa komið með hann að dyrum Alþingis fullan af fyrirheitum um Nýja-Ísland. Nei, meirihluti Alþingis stöðvaði Nýja-Ísland við dyragættina og sáði glópagullsfræjum og ormum vantrausts í hann. Nýja-Ísland er ei meir,“ sagði Birgitta áfram. Jarðvegurinn væri rotinn og vannærður. Framtíðin sem hefði verið ofin væri heillum horfin.

„Þessi mold sem ég stend á í innviðum valdsins er eins og laugin full af djúpstæðum flækjum sem vefjast um fætur unga þingsins og þeir falla allir sem einn með andlitið í súrefnislausa moldina og kafna í eigin oflæti. Ég er búin að fá nóg. Og hvað á ég að gera? spyr ég mig. Orð eru sverð. Þau eru máttugri en sverð, segja margir. Ég hnoða því orð í dag og vona að þau geti opnað á þetta fálæti. Hættum að bregðast við og förum að búa til Nýja-Ísland.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert